6 metanólbílum reynsluekið á Íslandi í eitt ár

Geely Emigrand 7 M100.
Geely Emigrand 7 M100.
Nú er að hefjast hér á landi 12 mánaða reynsluakstur á sex fólksbílum af gerðinni Geely Emigrand 7. Það sem er sérstakt við þetta er það að bílarnir verða knúnir hreinu metanóli sem framleitt verður í verksmiðju Carbon Recycling International í Svartsengi við Grindavík. Þetta kom fram á ráðstefnu á Grand Hótel í morgun, (þriðjudaginn 23. febrúar). Á ráðstefnunni er fjallað um Metanól sem orkugjafa fyrir hverskonar samgöngutæki, svo sem bíla og skip, frá margvíslegum sjónarhornum.
 
Bílaumboðið Brimborg flytur inn bílana sex og sér um þessa tilraun sem nú er verið að hleypa af stokkum, Starfsfólk Brimborgar annast um bílana og heldur þeim við meðan á tilrauninni stendur. Egill Jóhannsson forstjóri Brimborgar sagði í samtali við FÍB fréttir í morgun að bílarnir, sem koma frá Kína, eru búnir brunahreyflum (bensínhreyflum) sem sérstaklega hafa verið aðlagaðir því að ganga fyrir hreinu metanóli. Í Kína væri komin talsverð reynsla á notkun metanóls sem eldsneyti á bíla og forvitnilegt verði að sjá hvernig reynslan verður hér á landi.
 

Geely er kínverskur bílaframleiðandi. Á Vesturlöndum er Geely best þekkt sem eigandi Volvo fólksbílaframleiðslunnar í Svíþjóð og víðar, en eftir að Geely keypti Volvo af Ford hafa Volvobílar sjaldan eða aldrei verið vinsælli og eru sem aldrei fyrr í sérflokki fyrir öryggi.

Geely Emigrand 7 er fólksbíll af stallbaksgerð. ívið stærri og plássmeiri en VW Golf. Lengdin er 4,63 m og breiddin er 1,79 m. Vélin er 1,8 l brunahreyfill, 127 hö. Geely Emigrand 7 hefur ekki verið á almennum nýbílamarkaði hér til þessa, en það gæti breyst því að áætlað verð er hagstætt miðað við stærð og búnað. Sem venjulegur bensínknúinn bíll myndi hann kosta rétt um 3,8 millj. kr. en sem bíll knúinn endurnýjanlegri orku og þá án aðflutningsgjalda og VSK yrði verðið rétt rúmlega 2,8 millj. kr.