7. kynslóð VW Golf

Sjöunda kynslóð Volkswagen Golf er nú komin fram. Nú er byrjað að kynna hann evrópskum blaðamönnum í Berlín og stendur  það yfir allt fram til þess er bílasýningin í París verður opnuð almenningi undir lok þessa mánaðar. Breytingar á ytra útliti eru ekki stórvægilegar. Það eru þær hins vegar á innviðum bílsins.

VW Golf er nú byggður á nýrri grunnplötu eða undirvagni sem nefnist MQB-undirvagninn en Audi A3 og Seat Leon verða einnig byggðir ofan á þennan undirvagn. Með honum er Golfinn 100 kílóum léttari, rúmbetri og innrétting bæði fínni og þægilegri en áður. Golf er sömuleiðis stærri en hann hefur verið áður: Hann er 5,9 sm lengri milli hjóla og 5,6 sm lengri að heildarlengd en hún er nú 4,26 m. Þá

http://www.fib.is/myndir/Golf-2.jpg
http://www.fib.is/myndir/Golf3-maelab.jpg

er hann rúmum sentimetra breiðari. Það er ekki síst vegna hönnunar og byggingarlags undirvagnsins sem bíllinn er tæpum 6 sm lengri milli hjóla en áður. Framhjólin eru nefnilega umtalsvert framar en áður var. Það hefur síðan haft það í för með sér að betra fótarými er í aftursæti en áður hefur verið í Golf bílum og farangursrýmið er 30 lítrum stærra.

En þótt útlitsbreytingarnar virðist ekki stórvægilegar þá eru þær engu að síður nokkrar. Sú viðamesta er að bíllinn er 2,8 sm lágbyggðari  en Golf VI sem gerir hann rennilegri til að sjá. Þá er afturendinn talsvert breyttur og minnir nokkuð á hinn sportlega VW Scirocco. Svipað má líka segja um framendann.

Sæti, mælaborð og aðrar innréttingar eru nú fínni en áður og úr ýmsum litum og litasamsetningum að velja. Miðjustokkurinn í mælaborðinu er lítilsháttar sveigður að ökumanni og í honum er snertiskjár þar sem stjórna má útvarpinu og GPS leiðsögninni. Staðalskjárinn er fimm tommu svart hvítur skjár. Næsta skref upp á við er svo 5,8 tommu litaskjár. Útvarpið/hljómtækin/GPS leiðsögubúnaðurinn/síminn er af nýrri gerð sem kemur nú fyrst fram í Golfinum en verður síðan fáanlegur í öllum VW bílum síðarmeir.

Af fleiri tækninýjungum sem fáanlegar verða í nýja Golfinum má svo nefna skynvæddan skriðstilli sem stillir af hraða bílsins eftir umferð og aðstæðum allt frá 30 km upp í 160 km hraða, aðalljós sem stilla ljósmagnið af eftir akstursaðstæðum og birtuskilyrðum, rafsjón sem þekkir mismunandi umferðarskilti og hvað þau þýða, Þreytuviðvörun fyrir ökumann og internetsamband. Þreytuviðvörunin er reyndar hluti af nýju kerfi sem brípur inn í aksturinn ef aftanákeyrsla er yfirvofandi. Og ef ökumaður missir meðvitund tekur þetta kerfi við stjórn bílsins, hemlar og stýrir bílnum út í kant og stöðvar hann. Sjá má hér hvernig þetta virkar.

Úr fimm gerðum nýrra véla verður að velja. Fyrst skal nefnd 1,4 l TSI bensínvél með beinni strokkinnsprautun og túrbínu og búnaði til að slá tveimur af fjórum strokkum vélarinnar frá þegar fulls afls er ekki þörf. Þessi vél er 140 hestafla og sérlega sparneytin, sparneytnari en 80 ha. TSI bensínvélin sem einnig er fáanleg (sjá meðfylgjandi töflu).

http://www.fib.is/myndir/Velatafla-Golf7.jpg

Þá verður Bluemotion búnaður fáanlegur með 105 ha. TDI dísilvélinni sem kemur CO2 útblástursgildinu niður í 85 grömm á kílómetrann.  Sjö gíra DSG gírkassi verður valbúnaður, en start/stopp kerfi er staðalbúnaður.

Allt þetta og miklu fleira má lesa um í bæklingi um hinn nýja Golf VII sem er að finna hér. Hann er á PDF formi, 148 bls. og 4 mb.