8,8% aukning hjá Volvo í júlí

http://www.fib.is/myndir/VolvoS80.jpg
Volvo S80.

Veruleg söluaukning varð hjá Volvo í júlí sl. miðað við sama mánuð á síðasta ári. Í Evrópu jókst sala Volvo bíla um 12,8%, í Japan um 24%, í Rússlandi 66,9% og í Kína 148,1%.

„Aukningin er í samræmi við væntingar okkar og tengist markaðssetningu nokkurra nýrra gerða. Fyrst og fremst er þar um að ræða hinn glænýja Volvo S80, Volvo C30, Volvo V70 og Volvo XC70. En eldri gerðirnar stóðu sig einnig mjög vel í júlímánuði,“ segir Fredrik Arp, forstjóri og stjórnarformaður Volvo Car Corporation.

Í Mið-Evrópu jókst salan um 22,5% í júlí. Þar munaði mestu um Pólland og Tékkland þar sem aukningin varð yfir 40%. Þá styrktist markaðshlutdeild Volvo í Þýskalandi aftur. Aukningin þar varð 14,8% miðað við júlí í fyrra en þá hafði hún dregist saman um 8% miðað við júlímánuð 2005.

Í N. Ameríku (USA, Puerto Rico, Kanada og Mexíkó) varð hins vegar samdráttur um 6.1% miðað við júlí í fyrra. Alls seldust þar 10.620 Volvo fólksbílar.