88% samdráttur í sölu nýrra bíla á Íslandi

http://www.fib.is/myndir/Nyirbilar.jpg

Sala nýrra bíla í Evrópu í janúarmánuði varð sú minnsta í tvo áratugi. Hvergi var þó ástandið verra en á Íslandi. Þar reyndist samdrátturinn vera 88 prósent miðað við janúar á síðasta ári. Aðeins ein bíltegund bætti við sig í Evrópu. Það er Jaguar sem bætti sig um 19,4 prósent miðað við janúar í fyrra. Þetta kemur fram í mánaðarlegri samtantekt ACEA, samtaka evrópskra bílaframleiðenda.

Alls voru nýskráðir 958.500 fólksbílar á öllum 27 ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins í nýliðnum janúar sem er lægsta janúartalan undanfarin 20 ár. Hvergi varð aukning heldur einungis samdráttur. Minnstur samdráttur varð í Póllandi, 5,3 prósent en mestur á Íslandi eða 88 prósent. Nýskráningar á Íslandi urðu einungis 170 miðað við 1.432 í janúar í fyrra. Litlu skárra var ástandið í Lettlandi en þar varð 77 prósent samdráttur, í Litháen 67 prósent og Eistlandi 62 prósent.

Alls voru 33 bifreiðategundir í boði og einungis ein bætti hlut sinn miðað við janúar í fyrra: Það var Jaguar með 19,4 prósenta bata – úr 1665 eintökum í 1988. Mestur samdráttur varð í sölu bandarískra GM bíla eða 87 prósent. Þar á eftir koma Land Rover með 62%, Saab með 55% og Chrysler með 53%. Þar  á eftir komu Lexus með 49,5% og Mini með 47,5%.

Mest selda tegundin í Evrópu varð Volkswagen með 106.016 nýskráningar. Næstur er Ford með 89.216, Peugeot með 67.828, Fiat með 66.903 og Opel/Vauxhall með 66.340 nýskráningar.

Sé litið til bílaframleiðenda varð mestur samdráttur hjá GM, 35,4%. Þá Renault með 33,9%, BMW með 32,4% og Daimler með 30,5. Hjá Volkswagen varð samdrátturinn 20,1 prósent.

http://www.fib.is/myndir/Carsales2-jan.jpg

http://www.fib.is/myndir/Carsales-jan.jpg