89.000 létust í umferðinni í Kína 2006

http://www.fib.is/myndir/Kinatrafik.jpg
Hleðslan á þessu flutningafarartæki er hreint ekki traustvekjandi og segir vissa sögu um ekki sérlega háþróaða umferðarmenningu. Myndin hér að ofan er tekin af þátttakanda í París-Peking ökuferð Mercedes Benz sl. haust. Bílaumferð í Kína vex gríðarlega hröðum skrefum þótt enn sé hún vissulega miklu minni en hér á Íslandi miðað við höfðatölu íbúa í löndunum.

Á síðasta ári létust 89 þúsund manns í umferðarslysum í Kína. Þótt okkur finnst þessi tala gríðarlega há telja kínversk yfirvöld sig hafa náð ágætum árangri í umferðarslysavörnum því að miðað við árið á undan varð 16% fækkun dauðaslysa. Þá skal þess getið í þessu samhengi að Kínverjar eru 1,3 milljarðar og má því segja að Umferðardauðinn í landinu á síðasta ári svarar til þess að umferðardauðsföll eru 6,85 á hverja 100 þúsund íbúa. Til samanburðar þá voru þessi dauðsföll hér á Íslandi 10 á hverja 100 þúsund íbúa.

Kínversk yfirvöld telja sig með réttu hafa náð allgóðum árangri í því að verjast slysum í umferðinni því að nýliðið ár er hið fyrsta síðan árið 2000 sem færri en 90 þúsund manns farast þrátt fyrir bílaeign og -umferð aukist í risastökkum á þessu sama tímabili.

Á síðasta ári slösuðust alls 378.781 í umferðarslysum samkvæmt opinberum tölum kínverskra yfirvalda. Yfirvöld segja að að algengustu ástæður dauðaslysa séu ýmiskonar ofsafengin umferðarhegðun.