9% bíla sjálfkeyrandi 2035

Sjálfkeyrandi bílar verða 9% nýskráðra bíla í heiminum eftir tvo áratugi ef spá markaðsráðgjafarfyrirtækisins IHS Automotive gengur eftir. Reuters fréttastofan greinir frá þessari spá.

Nokkrir aðilar hafa undanfarið verið að gera tilraunir með sjálfvirkt akandi bíla þar sem engin þörf er fyrir ökumann og sá sem situr undir stýri í akstri, þarf ekkert að gera. Slíkir bílar eru þó ekki enn komnir á almennan markað en HIS telur að það muni senn breytast. Þeir verði fáanlegir upp úr 2025  og tæplega tíundi hver nýr seldur bíll verði með sjálfkeyrslubúnaði árið 2035.

Sérfræðingur hjá IHS telur að sjálfkeyrandi bílar verði fyrst í boði á þróuðustu bílamarkaðssvæðunum, eins og V. Evrópu, Bandaríkjunum og Japan árið 2025. Fyrsta kastið muni seljast um 230 þúsund slíkir bílar sem er innan við 1 prósent áætlaðrar heimsbílasölu þá upp á 129 milljón bíla. Salan muni síðan fara vaxandi ár frá ári og 2035 muni seljast 11,8 milljón sjálfkeyrslubíla eða um 9 prósent heildar-heimssölunnar.