A-Benzinn á Kóreuhjólbarða

http://www.fib.is/myndir/KumhoSolus.jpg

Nýir bílar af gerðinni Mercedes Benz A verða framvegis á hjólböðrum frá kóreska dekkjaframleiðandanum Kumho. DaimlerChrysler hefur gert samning við Kumho um að „original“ dekk undir þessum minnsta Mercedes Benz bíl verði framvegis Kumho Solus KH15.

Kumho er þar með fyrsti kóreski dekkjaframleiðandinn sem nær því að gera framleiðslusamning um „original“ hjólbarða undir evrópskan bíl og ræðst eiginlega ekki á garðinn þar sem hann er lægstur ef svo má að orði komast með því að ná slíkum samningi við Mercedes Benz.

Hjá Kumho vænta menn þess að þessi nýi samningur opni margar dyr í framtíðinni og að fleiri framleiðendur muni fylgja í kjölfarið. Framleiðsla á „original“ hjólbörðum undir nýja bíla hefur verið vaxandi þáttur í starfsemi Kumho síðustu árin.

Það dekk sem menn hjá Benz í Stuttgart vilja að verði undir nýjum A-Benz bílum framvegis hefur gerðarheitið Solus KH15 og er stærð þess 185/65R15T.
Þetta dekk seldist í yfir 3,5 milljónum eintaka í heiminum á síðasta ári. Það er hannað og þróað hjá Kumho Birmingham í Bretlandi. Það hefur nú verið endurbætt sérstaklega fyrir A-Benzann með nýrri gúmmíblöndu og lítilsháttar breyttri lögun á belgnum til að gera það bæði þægilegra og öruggara fyrir þennan tiltekna bíl að því er segir í fréttatilkynningu.