Á MG sportbílum um Ísland
09.09.2005

Hópur breskra eigenda og áhugamanna um MG sportbíla var á ferð á Íslandi í ágústmánuði sl. Ferðin var skipulögð af ferðaskrifstofu sem heitir Travel Destinations sem skipuleggur hverskonar ævintýraferðir m.a. á fornbílum.
Helen Burman sem skipulagði ferðina segir við FÍB blaðið að hún hafi tekist mjög vel. Bílarnir sem voru á ýmsum aldri, sumir áratuga gamlir, hefðu hegðað sér vel. Engar bilanir hefðu hrjáð þá fyrir utan smáræði eins og sprungin dekk hér og hvar eða slakir teinar í teinahjólunum. Skemmtilegra hefði vissulega verið að fá meira sólskin, en ekki hefði rignt á ferðalanga að ráði þannig að í heildina séð hafi þau verið heppin með veður.
Ferðin hófst í Aberdeen í Skotlandi þann 8. ágúst sl. þar sem MG fólkið dreif að hvaðanæva af Bretlandi á MG bílum sínum. Frá Aberdeen var siglt með ferju til Leirvíkur á Hjaltlandi þar sem ekið var um borð í Norrænu til Íslands. Hópurinn ók svo frá Seyðisfirði eftir tollskoðun þar fimmtudaginn 11. ágúst að Hótel Reynihlíð þar sem dvalið var í þrjá daga og ekið um héraðið á daginn til að skoða m.a. Dettifoss, Námaskarð, Jarðböðin, Dimmuborgir og fara í hvalaskoðunarsiglingu frá Húsavík. Á Akureyri hitti hópurinn akureyrska eigendur gamalla MG sportbíla og í Reykjavík tók Fornbílaklúbbur Íslands myndarlega á móti hópnum auk þess sem margir fleiri allt í kring um landið greiddu götu hans meðan á ferðalaginu hér á landi stóð.
„Skjólstæðingar mínir upplifðu mörg frábær og minnistæð atvik á Íslandi og náðu meira að segja að sjá norðurljósin,“ segir Helen Burman og segir að önnur svipuð ferð árið sé þegar í undirbúningi og margir þeirra sem þátt tóku þátt í ferðinni í sumar tali um að koma aftur til Íslands. „Við komum örugglega aftur 2007,“ segir Helen Burman hjá Travel Destinations að lokum.

Einn bresku ferðalanganna þvær bíl sinn.
English
Gerast Félagi
Eldsneytisvaktin

