Á MG sportbílum um Ísland

The image “http://www.fib.is/myndir/MGGodafoss.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Hópur breskra eigenda og áhugamanna um MG sportbíla var á ferð á Íslandi í ágústmánuði sl. Ferðin var skipulögð af ferðaskrifstofu sem heitir Travel Destinations sem skipuleggur hverskonar ævintýraferðir m.a. á fornbílum.
Helen Burman sem skipulagði ferðina segir við FÍB blaðið að hún hafi tekist mjög vel. Bílarnir sem voru á ýmsum aldri, sumir áratuga gamlir, hefðu hegðað sér vel. Engar bilanir hefðu hrjáð þá fyrir utan smáræði eins og sprungin dekk hér og hvar eða slakir teinar í teinahjólunum. Skemmtilegra hefði vissulega verið að fá meira sólskin, en ekki hefði rignt á ferðalanga að ráði þannig að í heildina séð hafi þau verið heppin með veður.
Ferðin hófst í Aberdeen í Skotlandi þann 8. ágúst sl. þar sem MG fólkið dreif að hvaðanæva af Bretlandi á MG bílum sínum. Frá Aberdeen var siglt með ferju til Leirvíkur á Hjaltlandi þar sem ekið var um borð í Norrænu til Íslands. Hópurinn ók svo frá Seyðisfirði eftir tollskoðun þar fimmtudaginn 11. ágúst að Hótel Reynihlíð þar sem dvalið var í þrjá daga og ekið um héraðið á daginn til að skoða m.a. Dettifoss, Námaskarð, Jarðböðin, Dimmuborgir og fara í hvalaskoðunarsiglingu frá Húsavík. Á Akureyri hitti hópurinn akureyrska eigendur gamalla MG sportbíla og í Reykjavík tók Fornbílaklúbbur Íslands myndarlega á móti hópnum auk þess sem margir fleiri allt í kring um landið greiddu götu hans meðan á ferðalaginu hér á landi stóð.
„Skjólstæðingar mínir upplifðu mörg frábær og minnistæð atvik á Íslandi og náðu meira að segja að sjá norðurljósin,“ segir Helen Burman og segir að önnur svipuð ferð árið sé þegar í undirbúningi og margir þeirra sem þátt tóku þátt í ferðinni í sumar tali um að koma aftur til Íslands. „Við komum örugglega aftur 2007,“ segir Helen Burman hjá Travel Destinations að lokum.
The image “http://www.fib.is/myndir/Follyhrensar.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Einn bresku ferðalanganna þvær bíl sinn.