Áætlaður kostnaður við umferðarslys á síðasta ári er 78,3 milljarðar

Í ársskýrslu slysaskráningar umferðaslysa sem Samgöngustofa gefur út kemur fram að átta létust í umferðarslysum árið 2023. 229 slösuðust í alvarlegum umferðarslysum á síðasta ári en árið 2022 voru þeir 195. Samanlagður fjöldi látinna og alvarlega slasaðra er 237 og hefur aldrei verið meiri á þessari öld að því er fram kemur í skýrslunni. Áætlaður kostnaður við öll um­ferðarslys á síðasta ári er að mati Sam­göngu­stofu 78,3 millj­arðar króna.

Í skýrslunni er bent á bent er á að í kjöl­far heims­far­ald­urs­ins hafa slysa­töl­ur hækkað ár frá ári sem megi m.a. skýra með því að er­lend­um ferðamönn­um hef­ur fjölgað á ný og ferðamát­ar hafa breyst einkum með fjölg­un raf­hlaupa­hjóla. Slysa­töl­urn­ar sýni að ekki hafi tek­ist að bæta hegðun og viðhorf öku­manna í um­ferðinni „og ljóst að öku­menn þurfa einnig að líta inn á við ef við ætl­um að ná slysa­töl­um niður á ný“, seg­ir í sam­an­tekt.

Fram kemur í skýrslunni að slösuðum af völd­um ölv­unar­akst­urs fjölgaði á milli ára úr 44 í 55 í fyrra. Fjöldi al­var­lega slasaðra vegna ölv­un­ar und­ir stýri stóð í stað á milli ára eða sjö alls. Eng­inn lét lífið af völd­um ölv­unar­akst­urs í fyrra en einn á ár­inu á und­an. Slösuðum vegna fíkni­efna­akst­urs fjölgaði á milli ára úr 31 í 41 og al­var­lega slösuðum vegna akst­urs und­ir áhrif­um fíkni­efna fjölgaði úr fjór­um í sex.