Að lækka hraðann í 30 km kallar á tímatafir og meiri mengun

Andrés Ingi Jóns­son, þing­maður utan flokka, hefur lagt til að há­marks­hraði í þétt­býli verði lækkaður niður í 30 kíló­metra á klukku­stund. Þingmaðurinn segir málið snúast bæði um öryggi og umhverfið. Ólafur Guðmundsson, umferðarsérfræðingur, sagði á sídegisþættinum á Bylgjunni, að þetta væri einhver vanhugsaðasta tillaga sem hafi heyrt lengi.

Reyndar hafi hann heyrt hana áður en þetta er sett fram án þess að vera búið að skoða heildarmyndina. Það að lækka hraðann þýðir ekkert annað en meiri mengun, meiri eldsneytiseyðsla, meiri tímatafir í umferðinni, minni afkastagetu strætisvagna og hreinlega á allt kerfið eins og það leggi sig.

Að mati Ólafs er þetta lagt fram af ástæðulausu. Við erum búin að taka borgina í gegn meira og minna og aðgreina 30 km frá 50 km. Það er í lagi að hafa 30 km þar sem er vélknúin og gangandi umferð er í sama rými. Við verðum samt alltaf að skilja eftir bæði hjólastíga og annað slíkt fyrir þá sem bara hjóla. Eins líka þá sem bara keyra, véknúna umferð, og þar með talið almenningssamgöngur. Það að vera að snúa þessu við ákkúrat á þessum tímapunkti er bara alveg vanhugsað því bílar eru smíðaðir fyrir allt annan hraða.

Fram kom í tillögunni að sveitarfélögum væri í sjálfvalt sett að ákveða hraðann. Ólafur sagði að þau hefðu það þegar í dag og almenna reglan væri 50 km.

,,Það væru viðmið sem öll Evrópa og bílaiðnaðurinn notar. Til að fara með hraðann niður í 30 km erum við 2-3 gírum neðar á hverjum bíl þannig að við erum að vanýta orkuna sem við erum að nýta í gegnum eldsneytið. Ávinningurinn er engin því megnið af þessum götum sem við erum að nota eru slys fátíð þar sem hraðinn er 50 km. Það er frekar að það verði slys í 30 km götum. Í þessari umræðu er rætt um að Svíar hafi breytt þessu hjá sér. Jú, þeir hafa verið að lækka hjá sér en þeir nota 40 km í stað 30 km svæði og þeir halda 50 og 60 km svæðunum áfram. Sveitarfélögin ráða þessu í dag og þar á meðal 30 km svæðunum. Reykjavíkurborg getur alveg ákveðið að hafa einhverjar götur með 30 km hraða en borgin þarf leyfi til þess frá lögreglunni og ákveðin rök fyrir því. Heimildin er fyrir hendi en það er algjörlega óþarft að snúa þessu á þennan hátt. Það er eiginlega ekki verið að breyta neinu. Þetta er skot út í loftið með engum tilgangi í mínum huga,” sagði Ólafur meðal annars í þættinum.

Ólafur sagði að meirihluti borgarbúa velur einkabílinn. Þetta væri okkar samgöngumáti og fólkið vildi frelsi og rétt til að nota bílinn. Á sama tíma viljum ekki skaða neinn. Það á bæði við um öryggi og mengun.