ADAC póstrútan hóf akstur 1. nóvember 2013

ADAC, félag þýskra bifreiðaeigenda og Deutsche Post, þýski pósturinn ákváðu fyrr á nýliðnu ári að fara í samstarf um rútuferðir og póstflutninga á milli borga og bæja í Þýskalandi undir nafninu Postbus.  Reksturinn hófst 1. nóvember síðastliðinn á akstri milli borga í Norður- og Mið-Þýskalandi eins og myndin sýnir.

http://www.fib.is/myndir/ADAC-leidir.jpg

Stefnt er að því nýja borgarrútan auki þjónustuna smám saman út um allt Þýskaland.  Snemma á þessu nýbyrjaða ári, 2014 er stefnt að því að tengja um 30 stærstu borgir Þýskalands saman með um 60 rútum. Ákvörðun um það hvort netið verði stækkað enn frekar verður svo tekin næsta sumar. En upp úr mmiðju árinu má reikna með að netið verði nokkurnveginn svona:

> Berlin - Leipzig - Erfurt - Frankfurt - Mannheim - Karlsruhe - Stuttgart
> Berlin - Leipzig - Nürnberg - München
> Bonn - Köln - Dortmund - Bielefeld - Hannover - Braunschweig - Magdeburg - Berlin
> Bremen - Hamburg - Berlin
> Dortmund - Essen - Köln - Bonn - Frankfurt - Nürnberg - München
> Dortmund - Essen - Köln - Frankfurt
> Dortmund - Essen - Köln - Frankfurt - Nürnberg - München
> Dresden - Berlin
> Duisburg - Düsseldorf - Köln - Frankfurt
> Duisburg - Düsseldorf - Köln - Frankfurt - Mannheim - Stuttgart - München
> Duisburg - Essen - Dortmund - Bielefeld - Hannover - Braunschweig - Magdeburg - Berlin
> Düsseldorf - Bochum - Dortmund - Bielefeld - Hannover - Braunschweig - Magdeburg - Berlin
> Düsseldorf - Köln - Frankfurt - Nürnberg - München
> Frankfurt - Mannheim - Karlsruhe - Stuttgart - Augsburg - München
> Frankfurt - Würzburg - Nürnberg - München
> Hamburg - Berlin
> Hamburg - Hannover - Göttingen - Kassel - Frankfurt - Mannheim - Karlsruhe - Stuttgart - Augsburg - München
> Hannover - Magdeburg - Berlin
> Leipzig - Dresden

ADAC og Deutsche Post stofnuðu sameiginlegt fyrirtæki um rútuferðir og póstflutninga í maí 2013 og á hvort félag helmingshlut.  Samstarfið fór til skoðunar hjá þýska samkeppniseftirlitinu sem gerði ekki athugasemd við þessa framkvæmd. 

-Við viljum að ADAC Postbus verði Þýskalandsrútan, sagði Jürgen Gerdes , stjórnarmaður í Deutsche Post DHL. Hvort sem þú ert námsmaður , ellilífeyrisþegi , ferðamaður, ferðast reglubundið sömu leið einn eða með fjölskyldu þá ætlum við að vera til staðar fyrir alla og bjóða upp á hagkvæmar, öruggar og þægilegar ferðir. Peter Meyer, forseti ADAC , hafði þetta að segja um nýju þjónustuna:  -Markmið okkar varðandi ADAC Postbus er að efla samgönguvalkosti og auka hreyfanleika borgaranna og gera fyrirtækið og þar með ADAC að eftirsóttum valkosti við lestir, flugvélar og einkabíla. Ég er ánægður með að tvö sterk vörumerki eins og ADAC og Deutsche Post geti verið samstiga um þetta framfaraspor.

Miðar eru í boði á netinu, hjá Deutsche Post og ADAC. Sjálfar rúturnar eru gular að lit enda er það einkennislitur bæði ADAC og þýska póstsins.  Til að byrja með mun ADAC Postbus verða rekinn í samstarfi við lítil og meðalstór rútufyrirtæki. Nýju gulu rúturnar munu vera útbúnar með besta fáanlega öryggisbúnaði og sem mestum þægindum fyrir farþega.