ADAC prófar „Dieselgate“ bíla VW

Nú líður senn að því að fyrstu dísilbílarnir sem VW pústsvindlið, sem erlendis kallast Dieselgate nær til, verði innkallaðir til lagfæringar. Margir hafa af því áhyggjur að eftir lagfæringu verði bílar þeirra bæði aflminni og eyðslufrekari. FÍB fylgist vel með málinu í nánu samstarfi við systurfélögin í Evrópu. Hið stærsta þeirra er ADAC í Þýskalandi en tæknideild ADAC rannsakar nú sérstaklega valin eintök bíla af þeim gerðum sem um er að ræða og hvort lagfæringarnar leiði til breytinga á afköstum og eyðslu.

Í rannsóknum sínum aka tæknimenn ADAC bílunum bæði á keflum inni í rannsóknastofum en líka og ekki síður í almennum akstri og mæla þar eyðslu, afköst og útblástur bæði fyrir og eftir lagfæringu. Þar með kemur væntanlega í ljós hvort eða hverskonar áhrif lagfæringarnar hafa á aflið og eyðsluna. Það verklag sem ADAC hefur í þessu er byggt á sömu aðferðafræðum og almennar bílaprófanir félagsins sem eru mjög yfirgripsmiklar og vandaðar. 

En það er ekki bara ADAC sem prófar bílana eftir lagfæringarnar sem framleiðandinn, VW, gerir, heldur líka þýska bifreiðaeftirlitið KBA. Þær prófanir eru mun yfirgripsminni en hjá ADAC og ná einungis til útblásturs og eyðslu sem hvorttveggja er mælt er á rannsóknastofu samkvæmt NEDC staðli. Niðurstöður KBA eru þannig í raun einskonar endurnýjuð gerðarviðurkenning.

FÍB fylgist vel með þessum málum og birtir nýjar fréttir af framvindunni jafnharðan og eitthvað markvert gerist.