ADAC stóð Nokian að fúski

Það var ADAC í Þýskalandi, systurfélag FÍB sem fletti ofan af fúski Nokian. Fúskið fólst í því að Nokian útvegaði óháðum hjólbarðaprófunaraðilum hjólbarða í gæðaprófanir og laumaði til þeirra hágæðadekkjum og lét í veðri vaka að þetta væru þau dekki sem í boði væru á almennum markaði.

Upp komst um málið þannig að prófunaraðilar ADAC uppgötvuðu fyrir nokkrum árum misræmi milli dekkja sem keypt voru af almennum hjólbarðasölum og þeirra sem Nokian framleiðandinn sjálfur sendi inn og komu þau síðarnefndu mun betur frá gæðakönnunum en þau sem almenningi stóð til boða. Þegar þetta hafði verið staðfest hættu tveir stærstu dekkjaprófunaraðilarnir í Evrópu sem eru ADAC og Test World að fá prófunardekk beint frá framleiðendum en kaupa þau inn í almennum hjólbarðaverslunum

FÍB blaðið hefur mörg undanfarin ár birt á hverju hausti gæðakönnun á vetrarhjólbörðum og sumardekkjakönnun á hverju vori. FÍB blaðið fær kannanirnar frá systurfélagi sínu í Noregi; NAF. Meginástæðan er sú að vetrardekkjakönnun NAF tekur sérstaklega til hjólbarða sem sérstaklega eru gerðir fyrir vetrarfærð á Norðurslóðum og er kostuð í sameiningu af NAF og nokkrum bílatímaritum í Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Rússlandi og framkvæmd af finnska prófunarfyrirtækinu Test World.

Það eru kannanirnar frá Test World sem birtast í FÍB blaðinu með góðfúslegu leyfi NAF. Í þeim er leitast við að gæta fyllstu hlutlægni. Reynsluökumennirnir sem aka tilraunabílunum vita sjaldnast hvaða dekkjategundir eru undir bílum þeirra hverju sinni. Sjálf tilraunadekkin hafa undanfarin allmörg ár ekki verið pöntuð beint frá framleiðendum heldur eru þau keypt inn hjá almennum hjólbarðasölum. Það er einmitt gert til þess að framleiðendurnir geti ekki sent inn sérútbúin dekk til að gefa sem bestar prófunarniðurstöður sem síðan reynast úr takti við raunveruleikann.

Talsmenn Nokian hafa nú viðurkennt við bæði finnska og sænska fjölmiðla að hafa haft rangt við og sent inn sérútfærð dekk inn í gæðakannanir  en segjast hafa hætt því eftir að ADAC sannaði misferlið á þá. Forstjóri Nokian, Ari Lehtoranta segist hafa beðist afsökunar á framferðinu og jafnframt yfirfarið og endurskoðað verkferla sína og samskipti við prófunaraðila þegar á síðasta ári.  „Við rannsökuðum okkar verklag og samskipti við prófunaraðila og settum okkar fólki reglur sem alfarið banna okkar fólki að skipuleggja og framkvæma sérfamleiðslu á dekkjum fyrir prófanir og fjölmiðlaumfjöllun. Stjórnin hefur þegar samþykkt þessar reglur og við biðjumst afsökunar á fyrri mistökum,“ segir forstjórinn við finnskt bílablað.

Altijussi Tähtinen markaðsstjóri Nokian í Finnlandi viðurkennir hið sama í samtali við sænska bílatímaritið Vi Bilägare. Tähtinen fullyrðir að þetta hafi aðallega verið gert fyrir nokkrum árum en lagst að mestu af eftir að stóru prófunaraðilarnir hófu sjálfir að kaupa inn dekkin sem þeir prófa. En Nokian hefði ekki verið eini framleiðandinn sem þetta gerði, heldur flestallir hinna líka. Það geti hann fært sönnur á því að Nokian geri svipaðar dekkjakannanir sjálft og prófi hátt í 20 þúsund dekk árlega í tilraunastöðvum sínum. Þar á meðal hafi þeir rekist á dekk sem stóðu sig verr en þau höfðu gert í óháðum könnunum skömmu áður.