Dregur aðeins úr nýskráningum

Dregið hefur úr nýskráningum fólksbifreiða en það sem af er októbermánuði eru þær 568 þegar ein vika er eftir af mánuðinum. Í september voru þær alls 1168. Vera kann að skortur á íhlutum til bílaframleiðslu sé eins af ástæðunum en það sem af er á árinu eru nýskráningar 10.348 en á sama tíma í fyrra voru þær 7.845. Aukningin nemur tæpum 32%. Þetta kemur fram í tölum frá Bílgreinasambandinu.

Kia er söluhæsta bifreiðategundin það sem af er árinu, alls 1.588 bifreiðar, en Toyota kemur þar á eftir með 1.582 bíla. Þessar bílategundir skera sig úr en Hyundai kemur í þriðja særinu með 862 bíla. Þar á eftir kemur Tesla með 749 bíla, Suzuki 575 og Volkswagen með 559.

Hvað nýskráningar fólksbíla varðar eru nýorkubílar í þremur efstu sætunum. Rafmagnsbílar eru með 24,9% hlutdeild, tengiltvinnbílar 24,5% og hybrid með 19,6%.  Bensínbílar eru með 18,1% hlutdeild og dísilbílar 12,9%.

Bílar til almennra notkunar eru 60,3% og til bílaleiga 38,6%.