Áfengismælir í öllum bílum

Þeir sem ætla að aka um Frakkland í fríinu í sumar skulu hér minntir á það að frá og með 1. júlí sl. er skylt að hafa áfengismæli í bílnum. Áfengismælirinn er viðbót við annan búnað sem skylt er samkvæmt frönskum umferðarlögum að hafa í bílnum, en það er viðvörunarþríhyrningur og öryggisvesti fyrir ökumann með sterku endurskini. Þessi búnaður er ekki einungis fyrir fransk-skráða bíla og franska ríkisborgara, heldur alla sem ferðast um franska vegi.

Það frjálslyndi sem fyrir margt löngu ríkti í þessu höfuðríki vínframleiðslunnar og endurspeglaðist í því að löggjafinn og framkvæmdavaldið sá í gegn um fingur sér með það þótt fólk fengi sér nokkur glös af frönsku rauðvíni með matnum og færu svo út að keyra, er algerlega úr sögunni. Mikið átak hefur verið gert í öryggismálum umferðarinnar sem borið hefur þann mikla árangur að dauðaslysum og alvarlegum slysum í umferðinni hefur fækkað mjög. Átakið hefur náð til flestra ef ekki allra þátta umferðar en ekki bara ökumanna einna eins og áður þótti sjálfsagt. Vegir hafa verið stórlega bættir, bílarnir hafa batnað, löggæslan hefur orðið skilvirkari og almenn viðhorf til umferðarmála hafa gerbreyst. Allt hefur þetta leitt til þess að Frakkland sem áður var með einna hæstu dauðaslysatíðni í Evrópu er nú meðal þeirra ríkja þar sem hún er lægst. Hinn lögbundni áfengismælir nú er hugsaður til þess að ökumenn sem hafa ánægju af frönskum vínum og mat og eru ekki fullkomlega vissir um ástand sitt, geti sjálfir mælt það hvort og hvenær þeim sé óhætt að setjast undir stýri og aka. Ef lögregla stöðvar mann og í ljós kemur að enginn er áfengismælirinn meðferðis er sektin 11 evrur eða um 1.785 kr. Geta skal þó þess að gefinn er fjögurra mánaða aðlögunartími. Það verður því ekki byrjað að beita sektum fyrr en frá og með 1. nóvember nk.

Sektarmörk áfengisinnihalds í blóðinu er í Frakklandi 0,5 prómill. Hafi maður verið hressilega að skálum fram eftir kvöldi og nóttu er vissulega hætta á að vera yfir 0,5 prómilla mörkunum að morgni. FÍB hvetur alla til þess að hugsa um og umgangast guðaveigar  af skynsemi, hófsemd og viti, hvar svo sem þeir eru staddir í veröldinni.  Þá skal það einnig haft í huga að ekki er hægt að treysta í blindni á ódýra áfengismæla sem keyptir eru í næstu dagvöruverslun eða bensínstöð. Þær geta allt eins gefið grænt ljós á akstur þótt áfengismagn í blóði sé yfir mörkum og maður stæðist ekki alvöru blóðprufu.