Aflaukning dísilbíla eftirá takmörkuð í Danmörku

The image “http://www.fib.is/myndir/ChipTuning_3.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Bannað verður að auka afl dísilvéla í bílum útyfir þau mörk sem framleiðandi vélanna mælir með, nái ný reglugerð í Danmörku fram að ganga.
Reglugerðartillagan er nú til umsagnar hjá ýmsum aðilum en samkvæmt henni verður bannað frá 1. apríl nk. að breyta stjórntölvum dísilbíla með því að umforrita þær og/eða skipta um tölvukubba í þeim í því skyni að auka vélaraflið og þar með mengun frá vélunum. Bannið nær þó ekki til breytinga sem eru innan þeirra marka sem framleiðandi leggur blessun sína yfir. Danska umferðarráðið hefur látið semja nýju reglugerðartillöguna en bæði samgönguráðuneyti og umhverfisráðuneyti Danmerkur styðja tillöguna.
Slíkar breytingar á stjórntölvum túrbínudísilvéla geta aukið afl vélanna um 25-30 prósent og kosta frá 10 þúsund ísl. krónum. En slíkar breytingar hafa gjarnan aukna eldsneytiseyðslu og útblástursmengun í för með sér.
Danska umferðarráðið er fyrir sitt leyti samþykkt því að breyta megi vélum með þessum hætti ef útblástursmengun verður sú sama eftir sem áður og það verði staðfest með því að bíllinn verði færður til sérskoðunar. Allar breytingar sem hafi í för með sér aukna útblástursmengun verði hins vegar algjörlega bannaðar. Ennfremur verði allur búnaður til breytinga af þessu tagi að vera tekinn út af viðurkenndu vottunarfyrirtæki til að mega vera til sölu og að leggja verði vottunarplöggin fram í sérskoðuninni.