Afsláttastríð olíufélaganna í aðsigi?

Svo virðist sem afsláttastríð sé að skella á milli olíufélaganna í eldsneytissölu. Í morgun auglýsti olíufélagið Skeljungur nýtt afsláttakerfi sem nær til eldsneytiskaupa á afgreiðslustöðvum Orkunnar og Skeljungs. Víst má telja að önnur olíufélög muni bregðast við útspili Orkunnar/Skeljungs.

http://www.fib.is/myndir/E-kort.jpg

Með þessu nýja afsláttakerfi vill Orkan/Skeljungur koma á sanngjarnan hátt til móts við þá neytendur sem bera hæstan eldsneytiskostnað, eins og segir í tilkynningu frá félaginu. Nýja afsláttakerfið er ekki ósvipað því sem félagsmenn FÍB, sem jafnframt eru handhafar dælulykla Atlantsolíu og FÍB njóta. Þeir fá tiltekinn afslátt á öllum afgreiðslustöðum Atlantsolíu og viðbótarafslátt að auki á einni sérvalinni stöð.

Á þennan sama hátt fá handhafar dælulykla, Orku- og  afsláttarkorta Orkunnar tiltekinn afslátt á öllum stöðvum Orkunnar og viðbótarafslátt á einni sérvalinni stöð. Hið nýja hjá Orkunni er svo það að viðbótar-afsláttarþrep Orkunnar bætast við 5 kr grunnafsláttinn á sérvöldu stöðinni. Þessi viðbótarafsláttur sem háður er keyptu magni eldsneytis, er 2 kr. til viðbótar við fimmkallinn. Þriðja þrepið þýðir svo þriggja krónu afslátt til viðbótar eða samtals 10 krónur frá uppgefnu verði á eldsneytisdælunni. Þetta mun vera mesti afsláttur frá dæluverði sem fáanlegur er nú.

Viðbótar afsláttarþrepin eru sem fyrr segir tengd því magni eldsneytis sem keypt var í mánuðinum á undan. Þetta skýrist betur af töflunni hér á eftir.  Afsláttarþrep Orkunnar eru í boði fyrir alla þá sem eru handhafar staðgreiðslukorts Skeljungs, Orkukorts, Orkulykils, Orkufrelsis og afsláttarkorts (skráð á kennitölu). Þeir sem ekki eru í viðskiptum við Orkuna/Skeljung geta skráð sig hér.

Yfirlit yfir afsláttaþrep Orkunnar

Lítrafjöldi í mán. á undan*

      Afsláttarþrep

      Afsláttur**

      Afsláttur á Þinni stöð***

Undir 50 lítrum

     1

     3

5

50-150 lítrar

     2

     5

7

150 lítrar eða meira

     3

     8

10

* Lítrar keyptir á Shell og Orkunni
** Afsláttur á bensínstöðvum Orkunnar
*** Tveggja króna viðbótarafsláttur á Orkustöð sem viðskiptavinur velur sjálfur bætist við afslátt í Afsláttarþrepum Orkunnar.