Aftur metár hjá Skoda

http://www.fib.is/myndir/SkodaOctavia2007.jpg
Skoda Octavia.

Árið 2006 varð enn eitt metárið hjá Skoda í Tékklandi. Alls voru framleiddir ríflega 500 þúsund bílar hjá Skoda á árinu. Vinsælasta gerðin í augnablikinu er Skoda Octavia. Mikill og stöðugur vöxtur hefur verið hjá Skoda frá því að Volkswagen eignaðist ráðandi hlut í verksmiðjunum. Sem dæmi um það má nefna að árið 1995 voru framleiddir einungis 208 þúsund bílar þannig að vöxturinn er mjög mikill og hraður.

Skoda byggir á gömlum merg og á millistríðsárunum hafði bílaframleiðslan á sér mikinn gæðastimpil. Ferdinant Porsche, þýski hönnunarsnillingurinn hannaði bíla fyrir Skoda og Skoda Superb var talinn hinn mesti lúxusvagn og gæðagripur sem alls kyns frægðarfólk eins og kvikmyndastjörnur sóttust eftir að eignast.

Eftir að stjórn kommúnista settist að völdum árið 1948 í Tékkóslóvakíu voru verksmiðjur Skoda þjóðnýttar og gæðin rýrnuðu smám saman og öll þróun varð hægari en áður. Skodabílar urðu í hugum margra að hálfgildings einnota ódýrum bílum sem rétt var að treysta ekki um of á.

Þó var það nú alls ekki algilt og ekki fyrir svo löngu kom sonur þekkts borgara og heiðursmanns í Reykjavík í heimsókn til FÍB. Hann sagði frá því að faðir hans hefði á námsárum sínum í Englandi á millistríðsárunum kynnst tékkneskum verkfræðinema sem síðar fór að starfa hjá Skoda í gæðaeftirliti og starfaði þar áfram eftir 1948 og fram á níunda eða tíunda áratug síðustu aldar. Íslendingurinn og tékkneski verkfræðingurinn héldu alltaf sambandi og Íslendingurinn ók alltaf á Skoda bílum alla sína fullorðinsævi. Hann endurnýjaði þá reglulega og Skodarnir hans voru ætíð afar öruggir í rekstri og biluðu ekki umfram eðlilegt viðhald. Þetta þótti mjög óvenjulegt og göldrum líkast.

Hvernig gat nú staðið á því að Skódarnir hjá þessum manni voru alltaf í lagi og ekkert að bila? Jú, á því var skýring og hún er þessi: Þegar Íslendingurinn endurnýjaði heimilisbílinn hafði hann jafnan þann háttinn á að hann fékk að fara með starfsmanni Tékkneska bifreiðaumboðsins sem síðar varð Jöfur, inn í tollgirðingu hjá Eimskip. Þegar þangað kom gekk hann á hvern Skódann eftir annan og opnaði bílstjóradyrnar til að leita að fangamarki vinar síns, tékkneska verkfræðingsins, á miða gæðaeftirlitsmannsins sem hafði lokaskoðað bílinn. Þegar fangamark verkfræðingsins var að finna á miðanum sem límdur var á dyrastafinn (A-póstinn) sagði maðurinn. -Þennan bíl vil ég, enda taldi hann sig geta treyst því að ekki væri um neinn „mánudagsbíl“ að ræða.

Í dag eru Skodaverksmiðjur í fimm löndum. Aðalverksmiðjan er sem áður í Mlada Boleslaw í Tékklandi. Hinar eru í Bosníu- Herzegovínu, Indlandi, Kazakhstan og Úkraínu. Nýjar verksmiðjur verða að líkindum ræstar á þessu ári í Rússlandi og í Kína.