Afvegaleiðandi ábyrgðarskilmálar

Norsk samkeppnisyfirvöld hafa safnað saman og kannað ábyrgðarskilmála 19 stærstu bílainnflutningsfyrirtækjanna í Noregi og fundið í þeim fjöldann allan  af óskýrum, misvísandi  og mótsagnakenndum skilyrðum sem kaupendum bílanna er sagt þeir þurfi að uppfylla til að ábyrgðin haldi. Þetta er til þess falið að skapa óvissu hjá eigendum bílanna um hvort eða að hve miklu leyti ábyrgð falli úr gildi sé bíllinn þjónustaður og viðhaldið á óháðu verkstæði. Þetta kemur fram í skýrslu sem samkeppniseftirlitið í Bergen hefur gefið út.

Samkeppniseftirlitið telur í skýrslunni að það sé samkeppnishindrandi að skapa með þessum hætti óvissu  meðal bíleigenda. Þeir einfaldlega treysti því ekki að ábyrgð haldi, sé farið með bílinn á frjálst verkstæði ótengt innflytjanda bílsins. Þar með er komið í veg fyrir að frjáls verkstæði geti óhindrað keppt við „merkjaverkstæðin.“ Hindranir eru settar í veg fyrir frjálsu verkstæðin með þessu, en frjáls samkeppni er forsenda lágs verðs, betri vinnubragða og fleiri valkosta fyrir bíleigendur segir í skýrslunni.

Frank R. Hansen framkvæmdastjóri danska bílgreinasambandsins tekur undir með norsku samkeppnisyfirvöldum. Í samtali við Motormagasinet segir hann að sífellt séu að koma upp mál í Danmörku sem sýni virðingarleysi ýmissa gagnvart samkeppnisreglum og lögum. Þetta sama heyri hann líka frá starfsbræðrum sínum í öðrum Evrópuríkjum. „Þótt samkeppnislög hafi verið lengi í gildi þá er eins og þau hafi ekki náð eyrum manna hjá bílaframleiðslufyrirtækjunum,“ segir Frank R. Hansen við Motormagasinet. Þetta geti verið mjög bagalegt þegar afla þarf tæknilegra upplýsinga út frá framleiðslunúmerum bíla. Þá rekist menn gjarnan á hindranir og fá ekki upplýsingar um atriði eins og t.d. „original“ varahlutanúmer og um aldur bíls út frá kóðum í grindarnúmeri hans.