Áhættukortabók EuroRAP komin út

Á hverju ári farast 35 þúsund manns í umferðinni í Evrópu. Því fer fjarri að dauðaslysin dreifist jafnt yfir alla vegi álfunnar. Þvert á móti verða flest dauðaslysanna á einungis 10 prósentum veganna. Nú er komin út rafræn vegakortabók Eurorap þar sem vegir eru flokkaðir eftir því hversu hættulegt það telst að ferðast á þeim.

Íslenska vegakerfið er í nýju kortabókinni enda er Ísland er eitt fyrstu landanna í Evrópu sem hóf að gera EuroRAP öryggisúttekt á vegakerfinu. Flestar meginleiðir og ferðamannaleiðir hérlendis hafa verið skoðaðar og áhættugreindar amk einu sinni og í kjölfarið hefur fjöldi staða og kafla í vegakerfinu verið endurbættur með tilliti til niðurstaðna EuroRAP athugunarinnar. Þannig hefur hættulegum köflum og stöðum smám saman fækkað umtalsvert frá því starfsemi EuroRAP á Íslandi hófst fyrir tæpum áratug.

Áhættukortabók EuroRAP, European Road Safety Atlas, hefur undanfarin þrjú ár verið í smíðum og er nú komin á Netið og er aðgengileg hverjum sem er. Óhætt er að hvetja alla þá sem hyggja á ferðalög í sumar, hvort heldur er á heimaslóð eða erlendis að glugga í bókina áður en lagt er af stað. Sænska ríkisútvarpið kynnir hana t.d. myndarlega á fréttavef sínum í dag.

Í bókinni eru vegir áhættugreindir með mismunandi litum og eru svartlitaðir vegir háskalegastir. Á þeim er lífshættan mest, bæði með hliðsjón af slysatíðni og almennu ástandi veganna. Grænmerktir vegir eru þeir þar sem hættan er minnst en milli grænna og svartra vega eru síðan þrjú önnnur hættustig sem merkt eru með gulum, brúnum eða rauðum lit. 

EuroRAP er verkefni sem FIA – regnhlífarsamtök bifreiðaeigendafélaganna í Evrópu átti frumkvæði að en megintilgangur verkefnisins var að efla umferðaröryggi með því að áhættugreina vegi og efla vitund almennings um öryggi í umferðinni.

Undanfarinn áratug hefur banaslysatíðni í umferðinni í Evrópu verið svipuð en vonast er til þess að nýja nýja áhættukortabókin stuðli að aukinni vitund almennings um þessi mál og að slysum fækki.

Samkvæmt tölfræðinni er dauðahætta á háskalegustu vegunum um 30 prósent hærri en á öruggustu vegunum.

Flest dauðaslysin verða á einungis 10 prósentum af vegum í vegakerfi Evrópu.

Lang flestir slysahæstu vegirnir í Evrópu eru einbreiðir vegir í dreifbýli. Á þeim verða fjórfalt fleiri dauðaslys að meðaltali en á meginvegum álfunnar, svonefndum E-vegum.