Áhrifa Covid-19 farið að gæta með minni umferð

Umferðin í byrjun mars hefur dregist mun meira saman en reyndin varð í janúar og febrúar. Líklegt verður að telja að hér gæti áhrifa af ástandinu vegna Covid-19. Hvort sem um er að ræða beinan samdrátt í umferð vegna kórónaveirunnar eða um sé að ræða afleiddan samdrátt vegna minnkandi umsvifa og t.d. fækkunar ferðamanna. Nema hvorttveggja sé ástæðan. Þetta kemur fram í upplýsingum frá Vegagerðinni.

Uppsöfnuð umferð í þremur lykilmælisniðum Vegagerðarinnar á höfuðborgarsvæðinu, fyrstu 12 dagana í mars, borið saman við sama tímabil á síðasta ári, hefur dregist saman um 4%.  Þegar horft er á tengingu umferðar við hagvöxt, sbr. fyrri fréttir Vegagerðarinnar af lykilteljurum, verður að telja þetta umtalsverðan samdrátt haldist hann út mars, sem einnig yrði þá nýtt met í samdrætti milli marsmánuða.  

 En til að setja þennan samdrátt í samhengi við það sem hefur gerst í fyrstu tveimur mánuðum ársins þá dróst umferðin saman um 1,6% í janúar og 0,9% í febrúar.  Þannig að það var útlit fyrir einhvern samdrátt í mars líka.

En samdrátturinn skiptist svona niður á sniðin þrjú:

Lykilteljari 

 Samdráttur

 Hafnarfjarðarvegur

- 7,1 %

 Reykjanesbraut

- 4,1 %

 Vesturlandsvegur

- 1,3 % 

 

 

Af þessu sést að umferðin dregst mest saman á Hafnarfjarðarvegi en minnst á Vesturlandsvegi.