Akstur minnkaði mikið árið 2020

Heildarakstur á öllu landinu, samkvæmt útreikningum Vegagerðarinnar, reyndist 22 prósentum minni árið 2020 en árið áður, þetta er sexfaldur samdráttur miðað við það sem mest hefur mælst áður. Eigi að síður nær aksturinn að vera meiri en árið 2015 sem skýrist af því að akstur á landinu hefur aukist gríðarlega á síðustu árum meðal annars vegna aukins ferðamannastraums.

Nú hefur Vegagerðin lokið við að reikna út fyrstu aksturstölur á þjóðvegakerfið fyrir árið 2020. Benda niðurstöður til þess að heildaraksturinn verði í kringum 22 prósentum minni en árið 2019. Það er ljóst að um einstæðan samdrátt verður um að ræða, frá því að Vegagerðin hóf skipulagðar mælingar á þjóðvegakerfinu með svipuðu sniði og nú er gert, því hann verður líklega sex sinnum stærri en fyrra samdráttarmet, sem var 3,7 prósent á milli áranna 2010 og 2011. 

Heildaraksturstölur árið 2020 eru nú aðeins stærri en árið 2015 og ástæða þess að ekki þarf að leita lengra aftur í tímann, eftir sambærilegum aksturstölum, er sú að aksturinn hafði aukist gríðarlega á árabilinu 2011 – 2018, eins og sjá má á meðfylgjandi línuriti.

Samdráttur mældist í öllum svæðum Vegagerðarinnar og sveitarfélögum. Eftir svæðum má lesa úr fyrstu niðurstöður að akstur hafi dregist mest saman á Austursvæði eða rúmlega 34 prósent en minnst á höfuðborgarsvæði eða um rúmlega 12 prósent, sjá nánar á stöplaritinu.

Mest dróst umferð saman í Skaftár- og Mýrdalshreppi, sem kemur ef til vill ekki á óvart vegna mikillar umferðar ferðamanna, en fast þar á eftir eru Höfn í Hornafirði og Snæfellsbær.

Minnst dróst umferð saman í litlum sveitarfélögum á Norðausturhorni landsins eða í Svalbarðshreppi í Eyjafirði og í Langanesbyggð en Fljótsdalshreppur fylgir þar fast á eftir.  Það sveitarfélag sem varð næst meðaltalssamdrætti er Dalabyggð með 22,5 prósenta samdrátt. Samdráttur í akstri í 58 prósentum sveitarfélaga varð hins vegar minni en landsmeðaltalið.