Akstursgerðin útrýma götukappakstri í Danmörku

The image “http://www.fib.is/myndir/Racing.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Enginn götukappakstur er lengur í Randers og Nakskov eftir að akstursæfingasvæði voru opnuð.
Kappakstur á nýjum lokuðum aksturssvæðum undir eftirliti og samkvæmt reglum sem gilda um akstursíþróttir hefur útrýmt stórhættulegum götu- og vegakappakstri á Randers- og Nakskov-svæðunum í Danmörku. En þrátt fyrir þetta er danska umferðarráðið andsnúið því að haldin séu lögleg kappakstursmót.
Á laugardaginn var söfnuðust 150 ungir ökumenn saman til keppni í kvartmílu á nýrri æfinga- og keppnisbraut í Randers. Lögreglan í bænum lítur með velvilja til þessa framtaks. Hún telur að reglulegt keppnishald af þessu tagi muni með tímanum útrýma að mestu götukappakstri og þeirri hættu sem umferðinni stafar frá slíku athæfi. „Um nánast hverja einustu helgi urðum við að bregðast snarlega við og leysa upp götukvartmílu þar sem hundruð manna sem safnast höfðu saman til að fylgjast með, voru í lífshættu. Það er úr sögunni nú. Við höfum ekki þurft að hafa afskipti af einu einasta slíku atviki síðan aksturssvæðið var opnað,“ – segir Peter Bay Jensen lögreglustjóri í Randers við Berlingske Tidende.
Í Nakskov er sömu sögu að segja eftir að gamall flugvöllur í Holeby var tekinn í notkun sem akstursíþróttasvæði. „Það eru engin vandamál lengur hjá okkur vegna kappakstursæðigangs á götum og vegum,“ segir Jørgen Brædder lögreglustjóri í Nakskov.
Þrátt fyrir góða reynslu á þessum tveimur stöðum treystir danska umferðarráðið sér ekki til að mæla með því við sveitarfélög að þau opni kappaksturssvæði fyrir unga ökumenn. „Í Svíþjóð bendir ýmislegt til þess að tilraunir af þessu tagi hafi leitt til hranalegra aksturslag,“ segir framkvæmdastjóri ráðsins, Rene La Cour Sell.