Al-Attiyah sigurvegari Dakar rallsins

Dakar rallinu lauk um helgina í Buenos Aires í Argentínu. Sigurvegari í bílaflokki varð Nasser Al Attiyah frá Qatar ásamt aðstoðarökumanninum, Frakkanum Mathieu Baumel. Þeir óku til sigurs á sérbyggðum Mini All4 Racing.  Keppnisleiðin var um níu þúsund kílómetrar yfir eyðimerkur og vegleysur, m.a. yfir Andesfjallgarðinn til Chile, norður til Bólivíu og til baka til Buenos Aires. Þetta er annar sigur Al-Attiyah í Dakar rallinu en sá fyrsti hjá Baumel.

Giniel de Villiers og Dirk von Zitzewitz urðu í öðru sætinu á Toyota Hilux en í þriðja, fjórða og fimmta sæti urðu einnig Mini All4 bílar. Hinn áður sigursæli Stephane Peterhansel sem fyrrum gerði garðinn frægan á Mitsubishi bílum ók að þessu sinni Peugeot 2008 DKR. Bíll hans stóðs sig ekki of vel, bilaði talsvert og skilaði Peterhansel í 11. sæti.

Í trukkaflokki sigraði rússneskt lið á rússneskum Kamaz trukki, þriðja árið í röð og í 12 skiptið síðan árið 2000. Í mótorhjólaflokki Sigraði Spánverjinn Marc Coma á KTM 450. Í fjórhjólaflokki sigraði svo Pólverjinn Rafal Sonik á Yamaha ATV.

Keppt var á rafmagnsbíl í fyrsta sinn í ár í sögu þessarar keppni. Rafbíllinn, sem var spænskur af gerð sem nefnist Acciona (sjá mynd), náði ekki að ljúka og var dreginn út úr henni á lokastigum keppninnar.