Al-umhverfisvænn Hummer sem étur gróðurhúsalofttegundir

http://www.fib.is/myndir/GM_logo_1.jpg

Hönnunarstofnunin General Motors West Coast Advanced Design Studio hlaut á dögunum sérstök hönnunarverðlaun í tengslum við bílasýninguna í Los Angeles. Þetta var annað árið í röð sem GM hönnunarstofnunin hlaut þessi verðlaun.

Hönnunarverðlaunagripurinn nefnist Hummer H 02. Bíllinn á að vera al-umhverfisvænn bíll því að þegar honum er ekið þá breytir hann gróðurhúsalofttegundinni koltvíildi í andrúmsloftinu í sýru.

Bíllinn, ef kalla má fyrirbærið því nafni, líkist einna helst einhverskonar teiknisöguskordýri. Bíllinn er eiginlega hálfgerð skepna, hálfvegis lifandi. Orkukerfi hans er algerlega sjálfbært. Sólarsellur framleiða vetni sem breytt er í rafstraum sem knýr fjóra rafmótora bílsins – einn við hvert hjól. Klæðning yfirbyggingarinnar er hol að innan og í holrúmunum búa þörungar sem hreinlega lifa á koldíoxíði og er úrgangsefnið sem frá þeim kemur hættulaus sýra sem fer út í andrúmsloftið, m.a. út um loftræstikerfið til að skapa léttan ilm í bílnum. Þörungarnir eiga að vera virkir allan líftíma bílsins sem áætlaður er fimm ár. Að þeim liðnum fer bíllinn í endurvinnslu en hann er endurnýtanlegur að fullu. Til að þörungarnir séu sem allra virkastir og éti sem allra mest koltvíildi allan líftíma sinn og bílsins eru ventlar á íverustöðum þeirra sem í yfirbyggingunni sem sjá til þess að taka inn andrúmsloft og skila út sýru.
http://www.fib.is/myndir/Hummerdesign.jpg
Loks skal nefna hjólin undir bílnum. Þau skynja jafnóðum veginn og laga sig að honum. Ef hann er ósléttur eða farið er um torfærur eru þau mjúk til að gripið sé sem best og þægindin mest, en úti á vegum hörð til að bíllinn sé sem stöðugastur.

Allur er Hummer 02 byggður úr endurnýtanlegum efnum. Ál er aðal efnið, en af öðru má nefna að sætaáklæði eru úr endurnýtanlegu plasti eins og því sem notað er í gosdtykkjaflöskur.