Aldarafmæli General Motors í gær

http://www.fib.is/myndir/Chevrol.Volt.styri.jpg

Svona lítur út i framsætum Chevrolet Volt.

General Motors á 100 ára afmæli um þessar mundir og í gær héldu menn hátíð í höfuðstöðvunum í Detroit og hápunktur hátíðarhaldanna var þegar nýi rafmagnsbíllinn, tengiltvinnbíllinn Chevrolet Volt var afhjúpaður. Volt er nú tilbúinn í fjöldaframleiðslu en bíllinn er sagður koma á almennan markað í nóvember 2010. Í Evrópu verður bíllinn markaðssettur undir merkjum Opel frá og með fyrri hluta ársins 2011.

Rick Wagoner forstjóri GM og Bob Lutz framleiðslu- og þróunarstjóri afhjúpuðu Volt bílinn að viðstöddum fulltrúum helstu fjölmiðla í Bandaríkjunum. Stolt þeirra yfir bílnum leyndi sér ekki, en Volt er fyrsti bíll sinnar tegundar sem tilbúinn er til fjöldaframleiðslu. Bíllinn var fyrst sýndur sem hugmyndarbíll á bílasýningunni í Detroit 2007 og þar á eftir á fleiri stórum bílasýningum um heim allan. Á sýningum hefur hann verið sýndur í ýmsum útgáfum og sem hreinn rafmagnsbíll og sem tengiltvinnbíll sem verða mun hin endanlega útfærsla. Þær endurbætur sem gerðar hafa verið á ytra útliti bílsins frá því hann var fyrst sýndur lúta flestar að því að bæta lögun hans með það að meginmarkmiði að loftmótstaða hans verði sem allra minnst.  En til að rafmagnið á rafhlöðunum endist sem allra best, þarf loftmótstaðan að vera sem allra minnst.

Eins og bíllinn er nú, kemst hann 60 kílómetra á rafhleðslunni einni og sér, án þess að brenna einum einasta dropa af bensíni eða dísilolíu. Rafgeymarnir eru hlaðnir með því að stinga bílnum í samband við 220 volta rafmagnsinnstungu og innan við þrjár klst. tekur að fullhlaða tóma geymana. Volt er tengiltvinnbíll, það er að segja rafmagnsbíll með ljósavél sem fer sjálfvirkt í gang þegar lækka tekur á geymunum. Áætla má miðað við þær eyðslutölur sem GM hefur gefið upp, að miðað við hefðbundna notkun á bílnum sem heimilisbíls á höfuðborgarsvæðinu hér á Íslandi geti orkukostnaðurinn orðið í kring um þrjár til fjórar krónur á kílómetrann sé bíllinn keyrður allt að 60 km á dag.

Auðvitað eru rafmagnsbílar í sjálfu sér engin nýjung. Þeir voru þegar til talsvert áður en árið 1908 gekk í garð – árið sem General Motors hóf starfsemi. Vandamálið hefur alla tíð hingað til verið það að ekki hafa fyrirfundist léttir rafgeymar sem gátu geymt í sér nóga raforku og með það stuttan endurhleðslutíma að rafbílar stæðust samkeppni við bensín- og dísilbíla. Þeir rafgeymar eru loksins nú í sjónmáli.

Í Volt bílnum eru geymar sem geyma í sér næga raforku til að aka bílnum 60 kílómetra. Til viðbótar við þá er sérstök rafstöð – lítil bensín- eða dísilvél sem knýr rafal. Rafstöðin fer sjálfvirkt í gang þegar geymarnir eru að tæmast. Ekki er uppgefið hversu langt bíllinn kemst samtals á rafhleðslunni og síðan á eldsneytisfyllingunni fyrir rafstöðina.  –Fleiri hundruð kílómetra var eina svarið sem fréttafólkið fékk við spurningunni á afmælishátíðinni í gær.

Rafgeymarnir í Volt geta fullhlaðnir skilað 16 kílówattstundum. Rafmótorinn, sem knýr bílinn áfram er 150 hestafla og vinnsla hans er 370 Newtonmetrar. Vinnslukúrfan er nánast flöt sem þýðir að mótorinn skilar öllum Newtonmetrunum nánast um leið og hann byrjar að snúast. Uppgefinn hámarkshraði bílsins er sagður 161 km á klst.
http://www.fib.is/myndir/ChevrolVoltAftur.jpg