Aldrei áður hefur mælst meiri umferð á Hringvegi

Aldrei áður hefur mælst meiri umferð á Hringvegi en í nýliðnum júní mánuði. Umferðin jókst um 7,6 prósent frá því í sama mánuði fyrir ári. Umferðin í ár hefur aukist mjög mikið eða um nærri 10 prósent og er útlit fyrir að í lok árs slái árið 2023 öll met í umferð. Þetta kemur fram í tölum frá Vegagerðinni.

Nýtt met var mælt í umferð, yfir 16 lykilteljara Vegagerðarinnar á Hringvegi, en aldrei áður hafa mælst jafn mörg ökutæki á Hringveginum og í nýliðnum júnímánuði. Umferðin jókst um 7,6% borið saman við sama mánuð á síðasta ári. Leita þarf aftur til ársins 2017 til að finna meiri hlutfallslegan vöxt milli júní mánaða. Þessi aukning er rúmlega tvisvar sinnum meiri en í meðalári.

Ólíklegt er talið að júní mánuður haldi þessu umferðarmeti þar sem bæði júlí og ágúst hafa, sögulega séð, mælst með meiri umferð. Það verður því fróðlegt að sjá niðurstöður þessara mánaða, þegar þær liggja fyrir.

Fram kemur að að mest jókst umferðin yfir mælisnið á Suðurlandi þar sem hún jókst um rúmlega 16% en minnst um mælisnið á höfuðborgarsvæði eða rúmlega 5%. Nú hefur umferð aukist um 9,5% frá áramótum, borið saman við sama tímabil á síðasta ári. Þessi aukning, miðað við árstíma, er rúmlega þrisvar sinnum meiri en í meðalári.

Mest hefur umferð aukist um Suðurland eða um tæplega 18% en minnst hefur umferð aukist um Austurland það sem af er ári. Umferð hefur aukist mikið í öllum vikudögum, frá áramótum, mest á mánudögum en minnst á sunnudögum. Meðalaukning á virkum dögum er 10% en 7,8% um helgar.