Aldrei fleiri Fólksvagnar

http://www.fib.is/myndir/Dr.Bernhard.jpg
Dr. Wolfgang Bernhard, stjórnarformaður Volkswagen.

Aldrei áður í sögu Volkswagen hafa fleiri fólksbílar selst, heldur en á nýliðnu ári, eða samtals 3,395 milljón bílar. Tekjur fyrirtækisins jukust sömuleiðis um 10% miðað við árið á undan. Vöxtur VW er því hlutfallslega meiri en vöxtur bílaframleiðslugeirans í heild varð á heimsvísu að sögn Dr. Wolfgang Bernhards, stjórnarformanns Volkswagen.

Stjórnarformaðurinn sagði á blaðamannafundi í Wolfsburg í gær að vöxtur Volkswagen hefði verið hvað mestur hjá fyrirtækiinu í Þýskalandi og í Evrópu í heild. Enda þótt Þýskaland sé mjög harður verðsamkeppnismarkaður hafi markaðshlutdeild VW samt vaxið þar úr 18,1% í 19,9% milli áranna 2005 og 2006. Þetta hefði tekist, ekki með afsláttum frá verði heldur með betri lánakjörum hjá Volkswagen bankanum og betri þjónustu við eigendur Volkswagen bíla í gegn um Volkswagen Service.

Í Vestur Evrópu í heild seldust samtals 1,525 milljón VW bílar og markaðshlutdeild jókst milli ára úr 10,3% í 11%. Volkswagen styrkti stöðu sína einnig verulega í Rússalandi. Þar seldust 19.200 bílar sem er 59,6% aukning milli ára.

Í Kína og Hong Kong seldust 625 þúsund VW bílar sem er 22,3 prósenta aukning milli ára auk þess sem jafnvægi náðist milli tekna og gjalda en VW hefur fjárfest mjög í Kína undanfarin ár.