Algert hrun í nýskráningum bíla

http://www.fib.is/myndir/New-Cars.jpg

Umferðarstofa hefur tekið saman yfirlit yfir nýskráningar ökutækja og eigendaskipti á fyrstu 23 dögum ársins borið saman við sama tímabil árið á undan. Í ljós kemur mjög mikil fækkun nýskráninga.

Nýskráningar ökutækja frá 01,01,'09 - 23,01,'09 er samtals 193 ökutæki en á sama tímabili í fyrra voru 1806 ökutæki nýskráð hér á landi. Þetta er 89,3% fækkun nýskráninga milli ára. Hafa skal í huga að hér er um að ræða nýskráningu og eigendaskipti allra ökutækja ekki bara bifreiða.

Fækkun á sér einnig stað hvað varðar fjölda eigendaskipta en þó er hún ekki eins mikil og í nýskráningum. Eigendaskipti ökutækja á sama tímabili eru 3751 en þau voru 5639 á sama tímabili í fyrra. Hlutfallsleg lækkun eigendaskipta nemur því 33,5% milli ára.

Svipaða sögu er að segja í grannlöndunum þótt hrunið sé mun minna en hjá okkur. Í Svíþjóð, svo dæmi sé tekið, urðu nýskráningar ökutækja 34 prósent færri í janúar en í sama mánuði í fyrra. Alls voru nýskráningar fólksbíla í ár í Svíþjóð 11.299. Nýskráningum vöruflutningabíla, stóra og smárra, fækkaði einnig í Svíþjóð. Fækkunin nam 33 prósentum.

32 prósent nýskráðra fólksbíla í Svíþjóð í nýliðnum janúarmánuði voru umhverfismildir bílar samkvæmt þarlendri skilgreiningu. Í fyrra á sama tíma var hlutfall umhverfismildra bíla 35,9 prósent. Miðað við janúar í fyrra hafa umhverfissjónarmiðin greinilega orðið að lúta í lægra haldi, því að hlutfallsleg fækkun nýskráninga á umhverfismildum bílum er 41 prósent.