Alkóhóllás í bjórflutningabílana

Áfengið á að vera á pallinum en ekki í blóðrás vörubílstjóranna segja stjórnendur hjá Carlsberg bjórverksmiðjunum í Danmörku og Svíþjóð sem eru nú að láta setja áfengislása í alla bíla fyrirtækisins. 

Fyrir fáeinum árum var reynt að láta bílstjórana blása í áfengismælitæki til að athuga hvort þeir væru ökuhæfir. Þetta vakti mikla reiði meðal bílstjóra og verkalýðsfélaga þeirra og menn fóru í verkföll til að endurheimta réttinn til að drekka bjór í vinnunni ens og alltaf hafði tíðkast.

En nú á greinilega að gera aðra tilraun með að hamla gegn bjórddrykkju í vinnunni því að jafnóðum og bílaflotinn hjá Carlsberg er endurnýjaður eru allir nýir bílar sem keyptir eru í stað eldri bíla útbúnir með innbyggðum áfengislásum. Til að bílarnir yfirleitt fari í gang þarf ökumaður fyrst að blása í þar til gerðan stút. Ef tækið nemur minnsta áfengisþef fer bíllinn einfaldlega ekki í gang.

Ekki er eingöngu um vörubíla að ræða heldur líka sendibíla, sölumannabíla og aðra bíla í eigu Carlsberg. Forstjóri Carlsberg í Svíþjóð segir við sænska fjölmiðla að þetta sé fullkomlega eðlilegt. Fyrirtækið framleiði og selji áfenga drykki og því beri starfsmönnum þess að ganga á undan með góðu fordæmi og að ekkert skuli fara á milli mála að ökumenn á bílum fyrirtækisins séu ávallt bláedrú.

Fyrir ekki svo löngu síðan máttu starfsmenn Carlsberg í Danmörku, jafnt bílstjórar sem aðrir, drekka þrjá fría bjóra á dag. Þessi þriggja bjóra skammtur var fyrir nokkru minnkaður niður í einn bjór með hádegismat undir háværum mótmælum starfsmanna.