Allir bílarnir eldri en 100 ára

The image “http://www.fib.is/myndir/LondonBrighton.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Eitt aldargamla farartækið kemur í mark í Brighton.
Elsta bílakeppni veraldar er trúlega London-Brighton keppnin. Hún var háð í fyrsta sinn þann 13. nóvember árið 1896. Þá lögðu hátt í 40 glænýir bílar upp frá Hyde Park í miðri London í 60 mílna eða um 100 km ökuferð til borgarinnar Brighton á suðurströnd Englands.
Brighton keppnin var fyrstu árin nokkurskonar reynsluakstur fyrir nýja bíla, eða sjálfrennireiðar eins og fólk nefndi þessa hestlausu hestvagna sín í milli. Fyrsta keppnin var haldin til að fagna því að ný lög höfðu verið sett sem leyfðu að aka mætti sjáflrennireiðum á allt að 19 km hraða á klukkustund, hvorki meira né minna og að ekki væri lengur skylt að á undan sjálfrennireið gengi maður haldandi á rauðu flaggi og varaði vegfarendur við og forðaði þeim frá því að verða undir hestlausu vögnunum. Fyrsta keppnin var mikill viðburður á sinni tíð og ekki einungis breskir bílasmiðir tóku þátt í henni heldur líka erlendir, þeirra á meðal Þjóðverjinn Gottlieb Daimler.
Árið 1927 var það ákveðið að keppnin yrði þaðan í frá kappakstur fornbíla – eins konar sögusýning. Þar með hætti hún að vera sýning á nýjungum í hinum vaxandi bílaiðnaði Bretlands og annarra Evrópulanda. Í dag geta einungis bílar frá árdögum bílsins tekið þátt í keppninni. Í keppninni sem að þessu sinni fór fram sunnudaginn 13. nóvember sl. var þátttaka takmörkuð við bíla eldri en af árgerð 1904. Yngri bílar en það fengu ekki aðgang. Þar með var í þessari merku keppni hvert einasta farartæki eldra en 100 ára að þessu sinni.