Allir bílarnir með fimm stjörnur

Öryggisstofnunin Euro NCAP sem er í eigu evrópsku bílaklúbbanna, systurfélaga FÍB, hefur nýlokið árekstrarprófunum á fjórum nýjum bílum. Bílarnir eru Citroën C4, Honda CR-Z, Hyundai ix35 og Suzuki Swift. Allir fengu bílarnir ágætiseinkunn eða fimm stjörnur af fimm mögulegum. 

Niðurstaðan er merkileg og gleðileg því hún sýnir í hnotskurn það aðhald sem árekstrarpróf EuroNCAP hafa veitt bílaiðnaðinum og leitt til þess að nýir bílar eru miklu öruggari nú en nýir bílar voru almennt áður en reglubundnar athuganir EuroNCAP hófust.

Euro NCAP hrósar sérstaklega Honda sem með CR-Z bílnum sýnir og sannar það að hægt er að gera mjög sparneytna bíla og tvinnbíla þannig úr garði að þeir séu ekki síður öruggir en aðrir stærri og þyngri. CR-Z fær hærri einkunn en nokkur Hondabíll hefur áður fengið fyrir öryggi ökumanns og farþega. CR-Z fær einnig mjög góða einkunn fyrir vernd fótgangandi, eða 71 prósent mögulegra stiga.

 Ekki er langt síðan Euro NCAP breytti „prófkröfum“ og einkunnagjöf sinni en þær, sem og verklag við sjálfar árekstursprófanirnar, höfðu áður verið jafnt og þétt í endurskoðun allt frá árinu 1997. Öryggiskröfur til bíla hafa þannig verið að harðna og bílarnir jafnt og þétt að batna. Þeir bílar sem nú hljóta fimm stjörnur eru þannig miklu sterkari og öruggari heldur en fimm stjörnu bílar voru til og með árinu 2008. Sl. vor boðaði EuroNCAP sl. að í framtíðinni ætti að stokka stjörnugjöfina upp og gefa sérstakar aukastjörnur fyrir það sem bílaframleiðendur gera sérstaklega vel í því að gera bílana sem öruggasta. Þessi nýja stiga- og stjörnugjöf verður sérstaklega kynnt á bílasýningunni í París þann 1. október nk. Nýi einkunnaskalinn nefnist Euro NCAP Advanced.

 Þeir bílaframleiðendur sem í framtíðinni innleiða nýjan búnað í bíla sína sem er til þess fallinn og hugsaður að auka öryggi fólksins í bílnum og utan hans geta framvegis vænst þess að fá sérstakar aukastjörnur og aukastig. Þessi auka-stigagjöf er þannig hugsuð til að ýta frekar undir þróun í átt til enn öruggari bíla og bílaumferðar.

Á heimasíðu EuroNCAP má sjá niðurstöður þessa nýjasta árekstrarprófs stofnunarinnar. Þá má fræðast nánar hér um Euro NCAP Advanced.