Allir fengu fimm stjörnur

Um áramótin gengu í gildi verulegar hertar reglur um það hvernig stig eru reiknuð út í árekstrarprófum Euro NCAP. Því bjuggust margir við því að eitthvað myndi þeim fækka bílunum sem fá fimm stjörnur eða fullt hús í prófunum í kjölfar hinna hertu reglna. Það hefur ekki gengið eftir hvað varðar nýafstaðna prófunarlotu, því að allir bílarnir fjórir sem prófaðir voru, fengu fullt hús eða fimm stjörnur.

Samkvæmt nýju reglunum eru það ekki síst sem kröfur hafa verið stórhertar gagnvart vernd fótgangandi sem fyrir bílnum verða. Niðurstöðurnar nú sýna að bílaframleiðendur hafa orðið fyrri til og endurbætt bílana áður en nýju reglurnar voru teknar í gagnið. Það veit vissulega á gott, en þar með er ekki sagt að ekki sé hægt að gera betur. Það á t.d. við um hinn nýja Peugeots 208 sem er svo að segja nákvæmlega á mörkunum með að ná fimmtu stjörnunni. Til að ná henni þarf bíll að ná 60 prósentum þeirra stiga sem gefin eru fyrir vernd fótgangandi. Peugeot 208 hlaut 61 prósent þessara stiga.

Hinn nýi Hyundai i30 reyndist einnig tæpur á fimmtu stjörnunni. Þar sýndi sig að styrkur bílsins við bæði framaná- og hliðarárekstur gæti verið betri.  Til samanburðar reyndust fleiri stig vera að baki fimmtu stjörnunni hjá bæði  BMW-3 og Mazda CX-5. Vernd fótgangandi reyndist ennfremur sérlega góð hjá Mazda jepplingnum. Ennfremur er hann sá eini þessara bíla sem hefur radarsjón og sjálfvirka neyðarhemlun  sem staðalbúnað. Búnaðurinn grípur inn í aksturinn og hemlar ef árekstur er í aðsigi, sem ökumanni hefur yfirsést. Dr Michiel van Ratingen stjórnarformaður Euro NCAP segir þetta mjög mikilvægan öryggisbúnað. „Ef allir bílar í umferð hefðu þennan búnað myndi það forða mjög mörgum árekstrum og slysum á vegum Evrópu. Í Mazda CX-5 í Evrópu er þetta staðalbúnaður og því gott fordæmi fyrir aðra bílaframleiðendur,“ sagði van Ratingen.

BMW 3: 5 stjörnur

Fólksrýmið aflagaðist ekki við framaná-áreksturinn. Ökumaður er mjög vel varinn og farþegar sömuleiðis, sem og börnin í bílnum sem eru sérlega vel varin. BMW 3 hlaut bestu einkunn fyrir hliðarárekstrarþol en mætti verja aðeins betur í árekstri við staur. Hnakkapúðar veita góða vörn í aftanákeyrslu. Reynslubíllinn var með aftengjanlegum loftpúða í fram-farþegasæti. Tengirofinn fyrir hann er þó ekki staðalbúnaður sem kostaði stig.

Vernd fótgangandi er mjög góð hvað varðar lögun stuðara og framenda vélarhlífarinnar. Sjálf vélarhlífin er þó full hörð.

Sætisbelti eru við öll sæti sem tengd eru flautu sem hvín ef einhver í bílnum spennir ekki beltið. ESC skrikvörn er staðalbúnaður en stillanlegur hraðatakmarkari er aukabúnaður. Sjá nánar.

Hyundai i30: 5 stjörnur

Fólksrýmið aflagaðist ekki við framaná-áreksturinn. Bæði kálfar og lærleggir ökumanns eru vel varðir. Vörn bæði ökumanns og framsætisfarþega er ágæt hvort sem hvortr sem um er að ræða  stór- eða smávaxið fólk. Bíllinn stóð sig vel í hliðarárekstri og álag á fólkið var hóflegt. Hins vegar þegar staurinn var keyrður í hlið bílsins var ákoma á líkamann í brjósthæð yfir meðallagi. Hnakkapúðarnir verja höfuð og háls vel við aftanákeyrslu.

Börn í bílstólum eru tryggilega föst. Hvað það varðar fær Hyundai i30 hæstu einkunn. Læsing til að aftengja farþegaloftpúðann fram í er til staðar og allar upplýsinga um hvernig það skuli gert eru fullnægjandi.

Framstuðarinn gefur ágæta vörn fyrir fótgangandi. Svipað er að segja af vatnskassagrillinu hvað varðar það ef börn verða fyrir bílnum en ef fullvaxnir eiga í hlut er verndin síðri. Hið virka öryggi er með miklum ágætum: ESC skrikvarnarbúnaður er staðalbúnaður á öllum markaðssvæðum Evrópu, sætisbelti eru við öll sæti og viðvörunarflauta ef einhver vanrækir að spenna beltið. Hraðatakmarkari sem EuroNCAP hefur viðurkennt er ekki staðalbúnaður í öllum undirgerðum. Því hreppir i30 ekki stig fyrir þann búnað. Sjá nánar.

 Mazda CX-5: 5 stjörnur

Fólksrýmið aflagaðist ekki við framaná-áreksturinn. Bæði kálfar og lærleggir ökumanns eru vel varðir. Vörn bæði ökumanns og framsætisfarþega er ágæt hvort sem fólkið var  stór- eða smávaxið. Í hliðarárekstri var vörn fólksins framúrskarandi og hið sama reyndist vera þegar staurinn var keyrður í hlið bílsins. Í báðum þessum gerðum áreksturs í hlið bílsins var árangurinn framúrskarandi. Þá verja hnakkapúðarnir vel gegn hálshnykk og höfuðmeiðslum við aftanákeyrslu.

Öryggi barnanna í bílnum er einnig með því besta sem gerist, óháð því hvar í bílnum börnin eru staðsett.

Vörn fótgangandi er einnig furðu góð með hliðsjón af því hversu hábyggður bíllinn er.

Af virkum öryggisbúnaði er það að segja að ESC er staðalbúnaður í öllum undirgerðum, sem og viðvörunarflautur við öll sæti sem minna fólkið á að spenna beltið. Hraðatakmarkari er ekki fáanlegur. Sjá nánar.

 Peugeot 208: 5 stjörnur

Farþegarýmið aflagaðist ekki við árekstur framanfrá og vörn fólksins í bílnum var með ágætum, óháð líkamsstærð þess og staðsetningu. Árangurinn í hliðarárekstri reyndist viðunandi en í árekstri við staurinn var hann síðri. Álag á efri hluta líkamans, sérstaklega í brjósthæð, var full mikið.

Sú vörn sem sæti og hnakkapúðar veita í aftanákeyrslum er miðlungsgóð.

Álagið á börn í barnastólum reyndist ekki fara yfir viðmiðunarmörk. Í hliðarárekstursprófinu héldust börnin, bæði þriggja ára og einnig 18 mánaða, tryggilega föst.

Læsing til að aftengja loftpúðann við farþegasætið fram í er til staðar. Upplýsingar um hvernig eigi að aftengja púðann eru hins vegar ófullnægjandi.

Stuðarinn er þannig gerður og lagaður að hann er ekki líklegur til að valda skaða á fótgangandi sem verður fyrir bílnum.

Allar undirgerðir eru með ESC sem staðalbúnað og viðvörunarflautur fyrir öryggisbelti eru aðeins á framsætum. Hraðatakmarkari viðurkenndur af EuroNCAP er staðalbúnaður. Sjá nánar.