,,Allir vinna” hefur verið framlengt út árið 2021

Fyrir tilstuðlan Bílgreinasambandsins var bílgreinin tekin inn í „Allir vinna“ hjá Skattinum fyrr á árinu, sem gerir það að verkum að frá og með 1. mars síðastliðnum hefur verið hægt að sækja um 100% endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu við bílaviðgerðir á fólksbílum. Var þetta afrakstur mikillar vinnu af hálfu Bílgreinasambandsins sem hafði um nokkurt skeið barist fyrir því að bílgreinin yrði hluti af þessu úrræði hins opinbera.

Nú hafa þau ánægjulegu tíðindi borist að „Allir vinna“ hefur verið framlengt út árið 2021 en upphaflega stóð aðeins til að leiðin yrði í gildi til næstu áramóta. Var þetta kynnt í gær sem hluti af aðgerðum stjórnvalda til að mæta ástandinu vegna kórónuveirunnar og til að tryggja stöðugleika á vinnumarkaðnum vegna Lífskjarasamningsins.

Um leið og ljóst var að árangur af erfiði sambandsins myndi skila sér þá hófst jafnframt vinna við að upplýsa neytendur sem best svo úrræðið yrði vel nýtt og myndi ýta enn frekar undir viðskipti við bílaverkstæði á óvissutímum. Fólst það m.a. í öflugri upplýsingasíðu á www.bgs.is þar sem öllum helstu upplýsingum vegna Allir vinna er komið á framfæri ásamt því sem auglýsingaherferð var keyrð áfram á samfélagsmiðlum.

 „Það hefur verið ótrúlegt að fylgjast með þróun mála eftir að opnað var fyrir umsóknir um endurgreiðslur vegna bílaviðgerða en skv. nýjustu upplýsingum hafa borist í kringum 7.300 umsóknir til Skattsins. Er það þrátt fyrir að ekki sé langt síðan að úrræðið var kynnt og það sýnir okkur að þörfin fyrir svona úrræði var svo sannarlega fyrir hendi og bílgreinin hefði í raun átt að vera komin þarna inn fyrir löngu síðan. Kortaveltutölur vegna bílaviðgerða renna svo stoðum undir að árangurinn sé raunverulegur því veltan hefur verið ívið meiri en á sama tíma 2019,“ segir María Jóna Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins.