Alls seldust 11.728 fólksbílar á árinu 2019

Á nýliðnu ári, 2019, seldust alls 11.728 bílar. Árið 2018 var heildarsalan 17.976 bílar og er samdrátturinn á milli ára um 34,8%. Bílasalan var aðeins að rétta úr kútnum í desember en þá seldust 587 bílar samanborið við 482 bíla í desember 2018.

Salan í desember jókst því um 22% miðað við desember 2018. Er þetta í fyrsta sinn síðan í janúar 2018 sem söluaukning í stökum mánuði á sér stað á milli ára. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Bílgreinasambandinu.

Þrátt fyrir þetta er bílasala ársins 2019 yfir meðaltali frá áramótum en lægri en hún hefur verið allra síðustu ár. Á móti kemur að árin 2016, 2017 og 2018 eru mjög stór í bílasölu í sögulegu samhengi.

Mest selda bíltegundin á árinu var Toyota, þar á eftir KIA og þriðja mest selda tegundin var Hyundai. Volkswagen og Nissan komu sætunum þar á eftir.