Allt að 159% verðmunur á dekkjaskiptum, umfelgun og jafnvægisstillingu

Verðlagseftirlit ASÍ gerði verðkönnun á dekkjaskiptum, umfelgun og jafnvægisstillingu hjá 48 fyrirtækjum víðsvegar um landið sem bjóða upp á hjólbarðaþjónustu. Yfir 100% munur var á hæsta og lægsta verði á þjónustunni fyrir allar stærðir bíla í verðkönnun ASÍ sem fór fram þann 20. apríl. Mesti munur á hæsta og lægsta verði var á þjónustu fyrir jepplinga á 16" ál- eða stálfelgum 159%. Minnsti munur var á þjónustunni fyrir smábíla á 14" dekkjum á ál- eða stálfelgum, 109%. Könnun ASÍ í heild sinni má nálgast hér.

Í könnun ASÍ kemur fram Aðalbílar í Reykjavík var með lægsta verðið fyrir allar gerðir bíla (á ál- og stálfelgum) nema jeppa. Bifreiðaverkstæðið Stormur Patreksfirði var með lægsta verðið á þjónustunni fyrir jeppa á 18" dekkjum (á ál- og stálfelgum)  og næst lægsta verðið fyrir aðrar tegundir af bílum.

9.510 kr. munur á hæsta og lægsta verði fyrir jepplinga

Mestur hlutfallslegur munur var á hæsta og lægsta verði fyrir dekkjaskipti, umfelgun og jafnvægisstillingu á jepplingum á 16" dekkjum með ál- og stálfelgum, 159% eða 9.510 kr. Hæst var verðið hjá Réttingaverkstæði Sveins, 15.500 en lægst hjá Aðalbílum Reykjavík, 5.990 kr. Í krónum talið var munur á hæsta og lægsta verði mestur á þjónustunni fyrir jeppa á 18" dekkjum á ál- og stálfelgum, 11.740 kr. eða 143%. Hæst var verðið hjá Dekkjahöllinni, 19.940 kr. en lægst hjá Bifreiðaverkstæðinu Stormi, 8.200 kr.

109% eða 6.510 kr. munur var á hæsta og lægsta verði fyrir sömu þjónustu fyrir smábíla á 14" dekkjum (ál- og stálfelgur), 114% eða 6.810 kr. munur var á hæsta og lægsta verði fyrir minni meðalbíla á 15" dekkjum (ál- og stálfelgur) og 143% eða 8.591 kr. munur var á hæsta og lægsta verði fyrir meðalbíla á 16" dekkjum (ál- og stálfelgur).

Könnun ASÍ leiddi í ljós að lægsta verðið fyrir dekkjaskipti, umfelgun og jafnvægisstillingu fyrir smábíla, minni meðalbíla, meðalbíla og jepplinga á ál- og stálfelgum var hjá Aðalbílum Reykjavík, 5.990 kr. Næst lægsta verðið fyrir sömu tegundir af bifreiðum var hjá Bifreiðaverkstæðinu Stormi Patreksfirði, 7.200 kr. Bifreiðaverkstæði S.B. á Ísafirði var með þriðja lægsta verðið fyrir á jepplinga (ál og stál), 8.900 kr. Bifreiðaverkstæðið Stormur var með lægsta verðið á þjónustunni fyrir jeppa (ál- og stálfelgur), 8.200 kr. en næst lægsta verðið var hjá Aðalbílum, 8.990 kr.

Réttingaverkstæði Sveins Neskaupsstað var með hæsta verðið fyrir dekkjaskipti, umfelgun og jafnvægisstillingu fyrir smábíl (14" ál og stál), 12.500 kr. Næst hæsta verðið fyrir sömu gerð af bíl á álfelgum var 12.000 kr. hjá Vatnajökull Travel á Höfn í Hornafirði en fyrir smábíl á 14" stálfelgum Arctic Trucks, 11.500 kr.

Hæsta verðið fyrir minni meðalbíla (15") (ál- og stálfelgur) var hjá Arctic Trucks, 12.800 kr. en það næst hæsta hjá Réttingaverkstæði Sveins, 12.500 kr. Arctic Trucks var einnig með hæsta verðið á þjónustunni fyrir meðalbíla (16") (ál- og stálfelgur), 12.800 kr. en Dekkjahöllin það næst hæsta, 12.590 kr.

Þjónustan fyrir jepplinga á 16" dekkjum var dýrust hjá Réttingaverkstæði Sveins, 15.500 kr. og næst dýrust hjá Dekkjahöllinni, 14.690 kr. Dekkjahöllin var með hæsta verðið á þjónustunni fyrir jeppa á 18" dekkjum (ál- og stálfelgur), 19.940 kr. en næsthæst var verðið hjá Max 1, 18.316 kr.

Eftirfarandi þjónustuaðilar vildu ekki upplýsa verðlagseftirlitið um verð á þjónustunni: Hjólbarðaþjónustan Framnesvegi Reykjanesbæ, Höldur bílaverkstæði Akureyri, Hjólbarðaverkstæði Magnúsar Selfossi, Hjólbarðaverkstæði Óskars Sauðárkróki og Dekkjahöllin og B.V.A. Egilstöðum.