Alltaf hægt að gera betur

„Á umferðarþingi er hollt og gott að staldra við, athuga hvernig staðan er og hvar má hugsanlega gera betur. Það er í raun alltaf hægt að gera betur,“ Sagði Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra  í ávarpi sínu til umferðarþings sem hófst í morgun.

Ögmundur fjallaði í ávarpi sínu um umferðarslys og minntist þeirra sem létu lífið í þeim á liðnu ári. En ljósið myrkrinu væri þó að banaslysunum fer fækkandi af mörgum og samverkandi ástæðum. Bæði opinberir aðilar, samtök og einstaklingar hefðu lagst á eitt til að stefna að slysalausri umferð.

„Allt þetta skilar árangri og árangri ætlum við að ná, því við viljum engin slys í umferðinni. Ég vil þakka öllum sem lagt hafa hönd á plóg, bæði innan stjórnsýslunnar og þeirra sem standa utan hennar og hafa sýnt þessum málum áhuga og vil ég nefna FÍB sérstaklega í því sambandi og þakka fyrir það góða starf sem unnið er á vegum þeirra samtaka,“ sagði Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra.