Alþjóðleg Benz-kynning á Íslandi

The image “http://www.fib.is/myndir/Benz-GL.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.

Um þessar mundir stendur yfir mikil kynningarlota hjá Mercedes Benz hér á Íslandi á nýja stóra jeppanum Mercedes Benz GL. Það eru alls um 400 bílablaðamenn hvaðanæva úr heiminum sem hafa sérhæft sig í umfjöllun um bíla, sem boðið er til Íslands til að aka þessum nýja lúxusjeppa við mjög fjölbreyttar aðstæður.

Um 70 bílar, varahlutir í þá, viðgerða- og þjónustubúnaður og mannafli hefur verið flutt til landsins og hefur geymslu- og þjónustuaðstöðu við bílana verið komið upp í Skautahöllinni í Laugardal.

Auk GL jeppans fá blaðamennirnir einnig að kynnast minni jeppanum sem nefnist ML og loks einnig nýrri gerð Viano sendi/fólksflutningabílnum. Sameiginlegt er með þessum þremur gerðum að í þeim öllum er ný kynslóð véla og er sú öflugasta V8 dísilvél.
Blaðamennirnir koma í hópum til landsins og tekur dagskráin tvo daga fyrir hvern hóp. Sá fyrsti kom til landsins á sunnudag og hófst dagskráin síðdegis með kynningu í Eldborg, ráðstefnumiðstöð Hitaveitu Suðurnesja í Svartsengi við Grindavík. Þaðan ók hópurinn til Reykjavíkur en hinn eiginlegi reynsluakstur hófst árla morguninn eftir með því að komið var við í dælustöð Vatnsveitunnar að Gvendarbrunnum. Þaðan var ekið um Nesjavallaveituveg, norður Grafning, til Þingvalla og um Kaldadal að Húsafelli. Að Húsafelli var matarhlé en þaðan var svo ekið um Skorradal suður í Hvammsvík í Hvalfirði þar sem reynsluaksturinn endaði með grillveislu í miklum tjaldbúðum sem þar hefur verið komið upp í tengslum við þessa dagskrá.

Þeir starfsmenn Mercedes Benz frá Þýskalandi sem hér eru staddir vegna þessarar viðamiklu kynningar sögðu FÍB-fréttum að blaðamennirnir sem kæmu hingað til lands væru frá öllum helstu fjölmiðlum í Evrópu og Bandaríkjunum. Meðal þeirri hefði strax komið í ljós mikill áhugi á að reyna þessa nýju bíla við íslenskar aðstæður. Áberandi væri hversu margir blaðamannanna væru ritstjórar og yfirmenn fjölmiðla – fólk sem alla jafna fer ekki sjálft í verkefni af þessu tagi heldur gerir starfsmenn sína út af örkinni. Þeim hefði greinilega þótt eftirsóknarvert að komast til Íslands.

Það er íslenska fyrirtækið Pegasus sem skipulagt hefur kynninguna hér á landi, stungið út ökuleiðir og gengið frá gistingu og öllum viðurgerningi við blaðamennina og úthaldið í það heila tekið. Ljóst er að þetta er eitt stærsta verkefni þessarar tegundar sem ráðist hefur verið í hér á landi og varla þarf að efast um að mjög mikil landkynning mun hljótast af því þegar öll kurl koma til grafar.
http://www.fib.is/myndir/Benz-GL3.jpg