Alþjóðlegur minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa

Sunnudaginn 18. nóvember verður þeirra minnst sem látist hafa í umferðarslysum á Íslandi. Efnt verður til þessarar athafnar í sjöunda sinn og er hliðstæð athöfn víða um heim að tilhlutan Sameinuðu þjóðanna sem hafa tileinkað þriðja sunnudag í nóvember þessari minningu.

Um það bil 4.000 einstaklingar láta lífið og hundruð þúsunda slasast í umferðinni í heiminum á degi hverjum. Enn fleiri þurfa að takast á við áföll, sorgir og eftirsjá af völdum þessa. Segja má að allir upplifi með einum eða öðrum hætti afleiðingar umferðarslysa. Vart er til sá einstaklingur sem þekkir ekki einhvern sem lent hefur í alvarlegu slysi í umferðinni.

Minningarathöfn

Athöfn verður við þyrlupall bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi í Reykjavík sem hefst klukkan 11:00 og eru allir velkomnir að koma og taka þátt. Klukkan 11:15 er boðað til mínútu þagnar og eru allir sem hafa þess kost hvattir til að taka þátt í því. Á þessum degi er vert að leiða hugann að minningu þeirra sem látist hafa í umferðinni og íhuga þá ábyrgð sem hver og einn ber.

Dagurinn er ekki aðeins tileinkaður minningu látinna í umferðinni heldur hefur skapast sú venja hér á landi að heiðra þær starfsstéttir sem sinna björgun og aðhlynningu þegar umferðarslys verður. Eru þessum starfsstéttum færðar þakkir fyrir mikilvægt og óeigingjarnt starf þeirra. Gert er ráð fyrir að ein af þyrlum Landhelgisgæslunnar lendi á þyrlupalli bráðamóttökunnar rétt fyrir athöfnina og verður ökutækjum viðbragðsaðila stillt upp við þyrluna. Má þar nefna lögreglubíla og bifhjól, sjúkrabíla, slökkviliðsbíla, björgunarsveitarbíla og fleiri.

DAGSKRÁ:

10:45 Þyrla Landhelgisgæslunnar lendir við spítalann.

11:00 Stjórnandi athafnarinnar setur samkomuna.

11:05 Samgöngu – og sveitarstjórnarráðherra flytur ávarp og segir frá tilefni dagsins.

11:15 Mínútu þögn.

11:16 Þóranna Sigurbergsdóttir segir sögu sína en hún missti son sinn, Sigurjón Steingrímsson, aðeins 17 ára gamlan í umferðarslysi á Reykjanesbrautinni árið 1996. Sigurjón hefði orðið 40 ára þennan dag, 18. nóvember.

11:26-11:30 Stjórnandi segir athöfninni formlega lokið.

11:30 Þátttakendum boðið til kaffis í bílageymslu bráðamóttökunnar.