Alþjóðlegur minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa

Árlegur alþjóðlegur minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa var haldinn í gær sunnudaginn 21. nóvember. Hér á landi var kastljósinu sérstaklega beint að alvarlegum afleiðingum þess að nota ekki öryggisbelti. Táknrænar minningarstundir fóru fram víða um land.

Forseti Íslands og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra fluttu ávörp við minningarathöfnina við Björgunarmiðstöðina í Skógarhlíð. Þeir, ásamt fulltrúum viðbragðsaðila, kveiktu á kertum til minningar um fórnarlömb umferðarslysa og í kjölfarið var einnar mínútu þögn. Vegna faraldursins var streymt frá athöfninni á vef minningardagsins og á Facebook.

Sautján minningarathafnir voru skipulagðir um land allt í samvinnu við Slysavarnafélagið Landsbjörg og margar þeirra í beinu vefstreymi.

Einkennislag dagsins er lag KK, When I Think of Angels, í flutningi hans og Ellenar sem samið var til minningar um systur þeirra sem lést í umferðarslysi í Bandaríkjunum árið 1992. Lagið var flutt samtímis á minningardaginn kl. 14:00 á öllum útvarpsstöðvum sem eru með lifandi útsendingu.

Alþjóðlegur minningardagur

Tilgangurinn með deginum er að minnast þeirra sem látist hafa í umferðinni, leiða hugann að ábyrgð hvers og eins í umferðinni. Þá er rík hefð fyrir því á minningardeginum að færa starfsstéttum, sem sinna björgun og aðhlynningu þegar umferðarslys verður, þakkir fyrir mikilvægt og óeigingjarnt starf.

Minningardagurinn er alþjóðlegur undir merkjum Sameinuðu þjóðanna sem hafa tileinkað þriðja sunnudag í nóvember þessari minningu. Um það bil 3.600 einstaklingar láta lífið og hundruð þúsunda slasast í umferðinni í heiminum á degi hverjum. Það eru u.þ.b. 1.4 milljónir á einu ári.

Hér er hlekkur inn á heimasíðu FIA, alÞjóðlegu bifreiðasamtakanna sem FÍB er aðili að, þar sem F1 ökumenn styðja alþjóðlega minningardaginn með sameiginlegri yfirlýsingu.

Umferðarslys á Íslandi

Frá því að fyrsta banaslysið var skráð hér á landi 25. ágúst 1915 hafa 1592 látist í umferðinni á Íslandi (til og með 16. nóvember 2021). Enn fleiri slasast alvarlega, takast á við áföll, sorgir og eftirsjá af þessum völdum.

Það sem af er þessu ári hafa sjö einstaklingar látið lífið í umferðinni hér á landi. Allt árið 2020 létust sjö einstaklingar í umferðinni en árið 2019 sex manns. Alls liðu 258 dagar án nokkurs banaslyss á árinu og er það lengsti tími frá því að skráningar hófust 1966. Að meðaltali hafa undanfarin tíu ár 12 manns látist í umferðinni á hverju ári. Tíu ár þar á undan þ.e. frá 2001 til og með 2010 létust að meðaltali 20 manns á ári í umferðinni hér á landi.

Segja má að allt samfélagið deili með sér alvarlegum afleiðingum umferðarslysa. Vart er til sá einstaklingur sem þekkir ekki einhvern sem lent hefur í alvarlegu slysi í umferðinni. Það er því til mikils að vinna að koma í veg fyrir slysin og megi þessi dagur efla vitund okkar fyrir því og ábyrgð.

Samgönguráðuneytið, Samgöngustofa, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Lögreglan, Sjálfsbjörg og Vegagerðin stóðu að framkvæmd minningardagsins hér á landi.

Myndin með þessari frétt og kjarni tilkynningarinnar er fengin af vef samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins.