Andhljóð sem eyðir hljóði

http://www.fib.is/myndir/Antisound.jpg

Toyota hefur fundið upp kerfi sem dregur úr vélarhljóði í bílum. Um er að ræða einskonar hljóðkerfi sem sendir frá sér andhljóð sem upphefur annað hljóð í bílnum þannig að það heyrist minna eða heyrist alls ekki lengur. Þetta andhljóðkerfi sendir andhljóðin út um útvarpshátalarana í bílnum óháð því hvort kveikt er á útvarpinu/hljómtækjunum eða ekki. Þetta er sagt lækka vélarhljóð í bílnum um 5-8 desíbel sem er nóg til að vélahljóðið hættir að trufla þá sem í bílnum eru.

Þetta kerfi nefnist Active Noise Control, er í nýjum tvinnbíl Toyota sem hefur gerðarheitið Crown Hybrid. Það vinnur þannig að þrír hljóðnemar eru í bílnum sem fanga vélarhljóðið. Kerfið býr síðan til andhljóð vélarhljóðsins sem sent er út í hátalarana og andhljóðið, sem er í mótfasa við tíðni vélarhljóðsins,  deyfir þannig sjálft vélarhljóðið þannig að það hættir að trufla fólkið í bílnum.