„Andrésarbíll“ frá Daihatsu

http://www.fib.is/myndir/DaihatsuCopen1.jpg http://www.fib.is/myndir/Andres%D6nd.jpg
Andrésar Andarbíllinn frá Daihatsu tv. Sá til hægri er auðþekktur.

Lítill tveggja sæta sportbíll frá Daihatsu í Japan sem nefnist Copen er kominn á markað Þýskalandi og fæst sömuleiðis í Noregi – einu Norðurlandanna.  Daihatsu Copen var frumsýndur á bílasýningunni í París í október og varð mörgum gestanna þar starsýnt á bílinn vegna þess hve hann þótti minna á bíl Andrésar Andar teiknimyndafígúru.

Bíllinn hefur náð nokkrum vinsældum í Þýskalandi meðal ungs fólks sem þykir hann vera „hipp og kúl.“ Það er hann vissulega á sinn hátt þótt ekki sé hann neitt óskaplegt tryllitæki. Eigin þyngd hans er 850 kíló, vélin er 1,3 l, 87 hestafla, meðaleyðslan í blönduðum akstri er einungis sex lítrar, CO2 mengun er 148g/km en hámarkshraðinn er samt 180 km á klst. og viðbragð úr 0-100 er 9,5 sekúndur. Copen er fimm gíra og drif er á framhjólum. http://www.fib.is/myndir/DaihaatsuCopen2.jpg

Daihatsu Copen hefur síðustu árin verið einn mest seldi tveggja sæta sportbíllinn í Asíu og nú er semsé röðin komin að Evrópu og ekki er hægt að segja annað en að byrjunin í Þýskalandi og Noregi lofi allgóðu. Hingað kominn myndi Copen líklega kosta milli 1,6 og 1,7 m.kr.