Annar lífshættulegur Kínabíll

The image “http://www.fib.is/myndir/Brilliance-llitil.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Brilliance - einnar stjörnu bíll.

Tæp tvö ár eru síðan kínverski jeppinn Landwind var árekstursprófaður hjá ADAC í Þýskalandi á vegum þess og fleiri systurfélaga FÍB í Evrópu. Niðurstaðan var sú að Landwind var háskalegur bíll í árekstri og svo lélegur raunar að hann var helst sambærilegur við 30 ára gamla sambærilega bíla. Nú er hafin sala á kínverskum fólksbílum í Evrópu sem heita Brilliance. Brilliance hefur nú verið árekstursprófaður hjá ADAC og niðurstaðan er svipuð - sú að hann sé einfaldlega ekki boðlegur vegna þess hve litla vörn hann veiti fólkinu í bílnum. Niðurstaðan er ein stjarna

Bæði Landwind og Brilliance og fleiri gerðir kínverskra bíla sem nú eru fáanlegir í Evrópu eru óneitanlega á mjög góðu verði miðað við bíla í sömu stærðarflokkum. Brilliance er stór fólksbíll, sambærilegur við Hyundai Sonata, Kia Magentis og Skoda Superb sem allir eru fjögurra stjörnu bílar og þar með margfalt öruggari. Brilliance er hins vegar umtalsvert ódýrari en þeir og hér á landi myndi hann kosta rétt rúmar tvær milljónir króna. http://www.fib.is/myndir/Brill-arekst.2.jpg

En með hliðsjón af því hversu lítið er lagt í öryggið við smíði þessara kínversku bíla sem nú hafa verið árekstursprófaðir, þá geta þeir varla talist peninganna virði. Árekstursprófið hjá ADAC er gert á nákvæmlega sama hátt og gert er hjá EuroNCAP og heildarniðurstaðan varð ein stjarna af fimm. Í niðurstöðum prófunarinnar segir að mjög ólíklegt sé að raunverulegur ökumaður hefði lifað af áreksturinn. Hvernig árekstursprófið er framkvæmt má sjá á heimasíðu EuroNCAP.


Þeir kínversku bílar sem eru fáanlegir til kaups í Evrópu eru ekki gerðarviðurkenndir, heldur fær hvert eintak um sig skráningu eins og um sé að ræða sérbyggða og heimabyggða bíla. Sérbyggðum bílum stendur til boða svokölluð eins bíls viðurkenning - SVA, (Single Vehicle Approval). ADAC telur það vera alvarlegan galla við evrópsk lög og tilskipanir um viðurkenningu og skráningu ökutækja að það skuli vera mögulegt að skrá fjöldaframleiðslubíla á sama hátt og sérbyggð og heimabyggð ökutæki sem einungis fyrirfinnast í fáum eintökum hvert og eru auk þess yfirleitt í mjög takmarkaðri notkun. The image “http://www.fib.is/myndir/Brill.arekstur.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.

Það var sérstaklega í framaná-árekstri sem útkoman var afleit. Stýrið, mælaborðið og vinstra framhjól gengu svo langt inn í fólksrýmið að mjög ólíklegt telst að ökumaður hefði lifað af áreksturinn. Eftir áreksturinn reyndist ómögulegt að opna ökumannsdyrnar nema með öflugum verkfærum. Í farþegasætinu fram í urðu miklar ákomur á árekstrarbrúðuna sem jafngiltu slæmum meiðslum á manneskju. Það gerðist ekki síst vegna þess að loftpúðinn sprakk út á röngum tíma. Ennfremur gáfu beltin of lítið eftir eða teygðust of lítið við áreksturinn sem olli ákomum á bringu og viðbein sem jafngiltu m.a. beinbrotum. Svo til að kóróna alltsaman þá stungust út alls kyns egghvöss járn út úr neðanverðu mælaborðinu við áreksturinn sem ollu slæmum ákomum á hné og læri.

Við hliðarárekstur urðu árekstrarbrúðurnar einnig fyrir miklum ákomum sem jafngilda alvarlegum meiðslum, m.a. höfuðmeiðslum. Það var bæði vegna þess að engir hliðarloftpúðar né loftgardínur eru í Brilliance bílnum. Þá er svonefndur B-stólpi eða biti nánast óbólstraður.

ADAC telur báða kínversku bílana Brilliance og Jiangling Landwind og aðra af sama tagi vera alvarlega ógnun við öryggi í umferðinni og hvetur evrópsk ríki til að herða á reglum um skráningu bíla þannig að ekki verði lengur mögulegt að skrá fjöldaframleiðslubíla á sama hátt og heimabyggð ökutæki sem eigendur setja saman og nota sér til afþreyingar og ekki eru í daglegri notkun.

Innflytjandi Brilliance bíla í Þýskalandi er hins vegar mjög óánægður með árekstursprófið hjá ADAC og alla framkvæmd þess og hefur krafist nýs prófs sem fara mun fram í næsta mánuði. Fram til þessa hefur innflytjandinn selt um 360 bíla í gegn um fjögur söluumboð.