Áratugur öruggari umferðar

http://www.fib.is/myndir/MichelleYeoh.jpg

Michelle Yeoh leikkona og sendiherra Make Roads Safe verkefnis FIA.

FIA, alþjóðasamtök bifreiðaeigendafélaga og bifreiðaíþrótta hvetur ríkisstjórnir heims til að taka virkan þátt í tíu ára alheimsátaki gegn umferðarslysum. Markmið átaksins er að fækka dauðaslysum um 50 prósent fyrir árið 2020.

Undirbúningsfundur fyrir átakið var haldinn í San Jose, höfuðborg Costa Rica í síðustu viku. Þar komu saman æðstu menn FIA og FIA stofnunarinnar (FIA Foundation), talsmenn átaksins og sendiherrar Make Roads Safe verkefnis FIA og kröfðust aðgerða þegar í stað. Meðal þeirra sem sátu fundinn voru Nóbelsverðlaunahafinn Oscar Arias Sanchez forseti Costa Rica, Michael Schumacher fimmfaldur heimsmeistari í Formúlu 1, og leikkonan heimsþekkta, Michelle Yeoh en þau síðastnefndu eru sendiherrar Make Roads Safe verkefnisins. Hér má sjá mynd um umferðarslys á börnum með Michelle Yeoh og Michael Palin.

-Við bæði getum og verðum að stöðva mannfallið á vegunum. Umferðarslys eru meginorsök dauða og alvarlegra áverka á börnum í heiminum. Ef við aðhöfumst ekkert mun ástandið einungis versna,- sagði Michelle Yeoh. Óscar Arias Sánchez forseti Costa Rica tók í sama streng og sagði að umferðarslysin væru heimsfaraldur sem krefðist mannslífa í sama mæli og sjúkdómarnir malaría og berklar. Hann hét á þjóðarleiðtoga heims að leggja þessu átaki FIA liðsinni. http://www.fib.is/myndir/Schumi-Karla.jpg

- Ef við grípum ekki til aðgerða þegar í stað munu milljónir manna láta lífið á vegum heimsins næsta áratuginn. Við verðum að ná samstöðu um að auka umferðaröryggi og skila þeim árangri sem Costa Rica hefur náð í þessu efni yfir til annarra heimshluta,- sagði Michael Schumacher.

Á myndinni hér til hliðar sést Schumacer ásamt samgönguráðherra Costa Rica; Karla Gonzalez.

Umferðarslys eru megin dánarorsök ungs fólks á aldrinum 10-24 ára í heiminum um þessar mundir. Á hverjum einasta degi deyja yfir þrjú þúsund manns í umferðarslysum í heiminum, þar af 500 börn. Á hverju ári deyr yfir milljón manns í umferðarslysum og minnst 50 milljónir slasast. Talið er að dauðsföllum í umferðarslysum í þróunarlöndunum muni fjölga um 80 prósent á næstu 20 árum. Verði ekkert að gert er talið að árið 2015 verði umferðarslys meginástæða ótímabærs dauða barna í þróunarlöndunum – barna á aldrinum 5-16 ára.

Max Mosley forseti FIA sagði þetta ekkert einkamál þróunarríkjanna að fást við, heldur  á sameiginlega ábyrgð allra. –Aðeins með sameiginlegu átaki næst árangur í glímunni við þennan skæða faraldur sem stráir dauða og slysaógn yfir heimsins börn. Til viðbótar við óbætanlegan missi mannslífa kosta umferðarslysin minnst 100 milljarða bandaríkjadala í beinhörðum peningum. Þeim fjármunum er sannarlega betur verið til heilbrigðis- og menntamála,- sagði Max Mosley.