Fréttir

VW og BMW í leigubílabransann?

Bæði Volkswagen Group og BMW hafa stofnað dótturfélög sem keppa eiga við hið bandaríska Uber á leigubílamarkaði í borgum með sjálfkeyrandi bílum. Fyrirtæki VW heitir Moia og hyggst nota sérbyggða rafbíla. Hjá BMW hefjast prófanir á 40 sjálfakandi rafknúnum leigubílum þegar á komandi ári í heimaborinni Munchen. Þótt þessir bílar séu sjálfkeyrandi verða þjálfaðir tilraunabílstjórar í bílunum á reynslutímanum sem gripið geta inn ef eitthvað fer úrskeiðis.

Bíll ársins 2017 í Danmörku er Peugeot 3008

Það var lengst af mjótt á munum milli tveggja efstu bílanna í vali á bíl ársins 2017 í Danmörku. En í lokaatkvæðagreiðslu dómnefndarinnar réðu síðustu þrjú atkvæði dómnefndarinnar úrslitum og tryggðu nýja jepplingnum Peugeot 3008 sigurinn með 167 stigum yfir Alfa Romeo Giulia sem varð í öðru sæti og hlaut 149 stig.

Dísilvélin í dauðateygjunum í USA?

Volkswagen er að gefast upp á því að selja dísilfólksbíla í Bandaríkjunum og orðrómur er um að Mercedes hugleiði að gera hið sama. Meðan útblásturshneyksli Volkswagen hefur skekið Bandaríkin hefur sala dísilfólksbíla legið niðri og verður ekki endurræst að sögn háttsetts starfsmanns Volkswagen við þýskt dagblað.