Dísilvélin í dauðateygjunum í USA?

Volkswagen er að gefast upp á því að selja dísilfólksbíla í Bandaríkjunum og orðrómur er um að Mercedes hugleiði að gera hið sama. Meðan útblásturshneyksli Volkswagen hefur skekið Bandaríkin hefur sala dísilfólksbíla legið niðri og verður ekki endurræst að sögn háttsetts starfsmanns Volkswagen við þýskt dagblað.

Dísilhneyksli Volkswagen hefur dregið þann dilk eftir sér að dísilknúnir fólksbílar eiga ekki lengur upp á pallborðið hjá Bandaríkjamönnum, ekki einu sinni Mercedes Benz dísilfólksbílar. Automotive News greinir frá því að Mercedes sé að láta gera fyrir sig markaðsrannsókn til að ganga úr skugga um hvort það taki því að reyna að halda áfram að selja Bandaríkjamönnum dísilfólksbíla. Blaðið hefur eftir sölustjóra Mercedes í Bandaríkjunum að fyrstu niðurstöður rannsóknarinnar bendi til þess að það sé vonlaust. Nánast enginn áhugi sé lengur til staðar fyrir dísilfólksbílum.

Eitthvað virðist viðhorf neytenda þó vera annað gagnvart dísilknúnum jeppum og stærri bílum. En vandinn er bara sá að eftir pústsvindl VW hafa yfirvöld mengunarvarna í Bandaríkjunum hert mjög eftirlit með dísilbílum og hefur það leitt til þess að erfiðara er orðið að fá þá gerðarviðurkennda. Þannig hafa dísiljepparnir Benz GLS, GLC, GLE sem og nýi C-klass fólksbíllinn ekki enn fengið bandaríska gerðarviðurkenningu vegna þess að prófanir mengunarvarnastofnunarinnar EPA eru nú bæði flóknari, nákvæmari og þar með tímafrekari en áður var.