Áreiðanleikinn tryggði Subaru sigur

http://www.fib.is/myndir/Auto-Index-se-litil.jpg

Í nýlega birtri Auto Index könnun í Svíþjóð eru eigendur Subarubíla ánægðastir með bíla sína. Áður höfðu komið niðurstöður úr Auto Index könnunum í Danmörku og Noregi þar sem Toyota var í efsta sæti. Niðurstöðurnar í Svíþjóð hafa komið dálítið á óvart þar sem Subaru er tltölulega lítið þekkt bílmerki í Evrópu.

Subaru er með fyrirferðarminni fyrirtækjum í bílaiðnaði heimsins þótt öðru máli gegni á Íslandi þar sem Subaru hefur lengi notið góðs álits fyrir traustleika og rekstraröryggi. Subaru er í raun bílaframleiðslugrein hins japanska þungaiðnaððarfyrirtækis Fuji Heavy Industries og bílar þeirra hafa alla tíð haft vissa sérstöðu – þeir hafa verið fjórhjóladrifnir og vélin í þeim hefur verið af svokallaðri boxer-gerð – flöt með lárétta strokka svipað og vélin í gömlu VW bjöllunni, bara ekki loftkæld eins og í VW heldur vatnskæld.

Fyrstu Subaru bílarnir sem komu til Íslands á áttunda áratuginum voru litlir og fremur óásjálegir, en sítengt fjórhjóladrifið með háu og lágu drifi var þeirra höfuðkostur og margir sem þurftu að ferðast um mis vonda og torfæra vegi tóku þeim fagnandi og ekki spillti það fyrir að bílarnir reyndust traustir og endingargóðir og lítið fyrir að bila.

Hér á Íslandi hefur Subaru um skeið verið í nokkrum öldudal en hjá umboðsfyrirtækinu hér á landi er nú í gangi kynningarherferð og er t.d. Subaru Legacy með 2,0 l vél, -bíll sem telja má í efri milliflokki ásamt Toyota Avensis og VW Passat o.fl. boðinn á nánast sama verði og Toyota Corolla 1,6.

En hvað er það sem sænskum bíleigendum fellur svo vel við Subaru? Í Auto Index eru bíleigendur spurðir spurninga um flestallt sem viðkemur bílnum sjálfum, hvernig er hann í akstri og notkun, hver er ímynd bílsins að mati eigenda og hvernig er viðmót söluaðila og þjónustulund? Einnig er spurt um viðhalds- og viðgerðaþjónustu og ábyrgðareftirlit með bílnum, endingu hans og rekstraröryggi og áreiðanleika.

Á grafinu með þessari frétt má sjá alla þessa þætti vegna saman í eina heild og hvernig einstakar tegundir raðast. Í Svíþjóð er það tímaritið Vi Bilägare sem annast könnunina og hægt er að lesa nánar um niðurstöður hennar á vef tímaritsins. http://www.fib.is/myndir/Autoindex-SE-2007.jpg