Arizonaríki krefur GM um 3 milljarða dollara

New York Times greinir frá því að Arizonaríki hafi höfðað mál gegn General Motors fyrir að hafa vísvitandi svikið ríkið og íbúa þess og stefnt þeim í hættu með því að leyna hættulegum göllum í bílum og spara sér þannig kostnað við að innkalla bílana og endurbæta þá. Krafist er þriggja milljarða dollara skaðabóta.

Thomas C. Horne ríkissaksóknari (sjá mynd) segir kröfuupphæðina eðlilega í því samhengi að hægt sé að krefja einstaklinga um allt að 10 þúsund dollara skaðabætur vegna umferðarbrota. En hér sé um það að ræða að fleiri hundruð þúsund bíleigendur og leigutakar hafi verið í umferðinni á háskalegum bílum.

Þeir ágallar sem stefnt er út af eru m.a. gallaðir kveikilásar sem skyndilega geta átt það til að rjúfa sambandið. Við það drepst á bílnum og virkni hemla snarversnar, stýrið verður mjög þungt og loftpúðar óvirkir. Aðrir ágallar sem nefndir eru í stefnunni eru m.a. gallaðir loftpúðar, öryggisbelti, rafkerfi og raflagnir og hemlaljós.