Árleg alþjóðleg minningarathöfn um fórnarlömb umferðarslysa

Árleg alþjóðleg minningarathöfn um fórnarlömb umferðarslysa verður haldin við þyrlupall bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi sunnudaginn 17. nóvember kl. 14. Sambærilegar athafnir verða haldnar víða um land á vegum Slysavarnarfélagsins Landsbjargar. Hliðstæð athöfn fer fram víða um heim undir merkjum Sameinuðu þjóðanna sem hafa tileinkað þriðja sunnudag í nóvember þessari minningu.

Hugað að stöðu aðstandenda

Allir eru velkomnir að taka þátt í minningarathöfninni við þyrlupall bráðamóttökunnar í Fossvogi. Boðað verður til einnar mínútu þagnar kl. 14:15 og eru allir sem eiga þess kost hvattir til að taka þátt í því. Í ár verður kastljósinu sérstaklega beint að erfiðum aðstæðum aðstandenda eftir umferðarslys. Ása Ottesen markaðsstjóri mun flytja ávarp við athöfnina en hún hefur glímt við mikil áföll. Bróðir hennar lést í bílslysi fyrir mörgum árum en móðir hennar slasaðist einnig í því slysi. Systir hennar slasaðist alvarlega í umferðarslysi nýlega og er bundin við hjólastól.

Sambærilegar athafnir víða um land

Staðfest er að Slysavarnafélagið Landsbjörg stendur fyrir athöfnum á eftirfarandi stöðum en hægt er að afla nánari upplýsinga er hægt að fá hjá Slysavarnarfélag hvers staðar fyrir sig. Líkur eru á að athafnir séu á fleiri stöðum en hér eru tilgreindir:

• Reykjanes

• Dalvík

• Eskifjörður

• Ólafsfjörður

Viðbragðsaðilar heiðraðir

Hér á landi hefur skapast sú hefð við athöfnina að heiðra þær starfsstéttir sem sinna björgun og aðhlynningu þegar umferðarslys verður. Gert er ráð fyrir að ein af þyrlum Landhelgisgæslunnar lendi á þyrlupalli bráðamóttökunnar rétt fyrir athöfnina og verður ökutækjum viðbragðsaðila stillt upp við þyrluna.

Dagskrá:

• 13:45 – Þyrla Landhelgisgæslunnar lendir við spítalann.

• 14:00 – Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri setur athöfnina.

• 14:05 – Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, flytur ávarp.

• 14:10 – Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, flytur ávarp og segir frá tilefni dagsins.

• 14:15 – Mínútuþögn.

• 14:16 – Ása Ottesen segir sögu sína.

• 14:30 – Athöfn lýkur.