Árshátíð FIA - uppskeruhátíð bílasportsins

http://www.fib.is/myndir/Schumi-Moss.jpg
Tveir handhafar gullmerkis FIA; Michael Schumacher og Sir Stirling Moss.

Michael Schumacher Formúlukappi sem nýlega lauk keppnisferli sínum var sæmdur gullmerki FIA-alþjóðasambands bílaíþróttanna og alþjóðasamtaka bíleigendafélaga. Það voru Max Mosley forseti FIA og Bernie Eccelstone formaður Formúlunnar sem afhentu Schumacher gullmerkið á árshátíð FIA í Monaco um helgina. Að venju fengu sigurvegarar allra greina hins alþjóðlega bílasports afhent sigurlaun sín á þessari árlegu uppskeruhátíð FIA.

Michael Schumacher, sem sjö sinnum á ferlinum varð heimsmeistari í Formúlu 1 á óvenju farsælum og sigursælum ferli sínum, sagði í þakkarræðu sinni að hann notið mikillar gleði og ánægju með þáttöku sinni í mótorsporti um dagana og þakkaði öllu samferðafóllki sínu innan þess fyrir þess þátt í gleðinni, ekki síst frábæru samstarfsfólki sem hefði gert honum mögulegt að ná þeim árangri sem hann náði. Árangurinn væri afrakstur sameiginlegs starfs þeirra allra og allir ættu sinn hlut í honum.
http://www.fib.is/myndir/Max-Sch-Bernie.jpg
Afhending gullmerkisins var há- og lokapunkturinn á dagskrá hátíðarinnar í Monaco en gullmerkið er heiðursviðurkenning fyrir framúrskarandi árangur eða starf í þágu mótorsportsins. Max Mosley forseti FIA, sem er lengst til vinstri á myndinni, sagði þegar hann afhenti Schumacher gullmerkið að ferill hans væri búinn að vera með slíkum glæsibrag að þess væru ekki dæmi fyrr og yrðu vart dæmi um annan eins í framtíðinni.

En samhliða þessum glæsta keppnisferli hefði Schumacher verið einlægur, ötull og ómetanlegur liðsmaður þeirra sem auka vilja öryggi bæði innan bílasportsins og í almennri umferð. Bernie Ecclestone sagði að allar íþróttagreinar þörfnuðust þess að eignast ofurstjörnu af og til og það væri Schumacher svo sannarlega. Afrek hans töluðu sínu máli, þar þyrfti ekki frekari vitna við. En auk þess að vera ofurstjarna væri Michael drengur góður, velviljaður og vinur vina sinna. Hann væri mikill fjölskyldumaður sem ætti góða fjölskyldu sem væri honum allt í öllu. „Hann er gæfumaður og ég óska honum alls hins besta í framtíðinni,“ sagði Eccelstone.

Listann yfir alla þá sem heiðraðir voru á þessari árlegu uppskeruhátíð hins alþjóðlega mótorsports má sjá í fréttabréfi RedBull hérna.